Pólland er og verður fullvalda

Sendiherra Póllands á Íslandi, Gerard Pokruszyñski.
Sendiherra Póllands á Íslandi, Gerard Pokruszyñski. mbl.is/Arnþór Birkisson

Tengsl Íslands og Póllands hafa orðið æ nánari undanfarna áratugi, einkum vegna þess mikla fjölda Pólverja sem sest hafa að hér á landi um lengri eða skemmri tíma. Fyrir sitt leyti fengu Íslendingar kærkomna staðfestingu á þeim vináttuböndum í miðju bankahruninu, þegar Pólverjar voru auk Færeyinga einir þjóða til þess að rétta Íslandi fjárhagslega hjálparhönd þegar önnur nágrannaríki og bandamenn sneru við því baki og þjörmuðu raunar sum að því.

Síðustu vikur hefur pólska ríkið hins vegar átt í erjum við Evrópusambandið, sem á yfirborðinu snúast um valdmörk ríkisins og rétt borgaranna. Af hálfu pólskra stjórnvalda er þar hins vegar um fullveldi ríkisins að tefla, gildi pólsku stjórnarskrárinnar og eðli aðildar Póllands að Evrópusambandinu. Af því tilefni ræddi Morgunblaðið við sendiherra Póllands á Íslandi, Gerard Pokruszyñski.

„Við Pólverjar erum miklir Evrópubúar og stuðningur við Evrópusambandsaðild er nánast hvergi jafnmikill eða um 85%. Það er meira en í Frakklandi eða Þýskalandi. En 78% Pólverja eru jafnframt þeirrar skoðunar að stjórnarskrá Póllands sé æðri Evrópurétti.

Pólland hefur notið góðs af Evrópusambandinu á ótal sviðum. Það hefur gert okkur kleift að ná örum efnahagsframförum eftir að landið öðlaðist frelsi á ný eftir 1989 [þegar kalda stríðinu lauk], opnað nágrannaríkin fyrir okkur og opnað Pólland – 40 milljóna manna markað – fyrir fyrirtækjum frá öðrum Evrópusambandsríkjum. Og ekki aðeins frá Evrópusambandinu (ESB) heldur einnig öðrum ríkjum eins og Íslandi, því Íslendingar eiga t.d. fiskvinnslu í Póllandi.

Það hefur fært okkur frjálsa för fjármagns, vöru, þjónustu og fólks. Fyrir 1989 sögðum við að Pólverjar sem komust vestur yfir hefðu náð að flýja. Núna er það orðið alvanalegt að pólskt fólk fari til annarra landa að vinna í 5-10 ár, kannski lengur, og snúi svo aftur heim.“

Pólskir Íslendingar

Það kemur líka til Íslands.

Já, Pólverjar eru langstærsti minnihlutahópur á Íslandi. Og það má finna Pólverja um allt land í alls konar störfum. Mikið í fiskvinnslu hringinn um landið og í sumum fiskiðjuverum eru nær einvörðungu Pólverjar að störfum. Margir hafa fest rætur, börnin þeirra eru í íslenskum skólum og tala íslensku, en við höfum sums staðar skipulagt pólska skóla á laugardögum til þess að kenna pólsku, pólska sögu o.s.frv.

Svo er líka gaman að nefna hitt, að í Póllandi eru nokkur þúsund ungra Pólverja sem hafa flutt þangað aftur með foreldrum sínum, en kunna íslensku og sumir nota hana áfram sín á milli, hafa tileinkað sér íslenska menningu og halda sambandi við vini á Íslandi. Margt af þessu unga fólki hefur svo komið aftur hingað til Íslands þegar það er orðið fullorðið. Það á sér þannig tvö heimalönd og löndin tvö eiga að rækta með sér þetta sérstaka samband.“

Sjálfstæðið og Evrópa

Þið metið sjálfstæðið mikils.

„Já, og einmitt þess vegna er þessi deila við Evrópusambandið svo erfið. Eftir allt það sem á undan er gengið í sögu landsins tökum við fullveldið ákaflega alvarlega. Við erum heilshugar í Evrópusambandinu og eftirlátum því og stofnunum þess margvísleg völd. En í fullveldinu felst einnig ýmist vald, sem við viljum ekki og getum ekki framselt.“

Er Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, ekki að ögra ESB?

„Nei. Þegar um er að ræða úrskurð stjórnlagadómstóls Póllands um hvar dómsvaldið liggur, þá hefur hann ekkert val um það.

En þá má ekki heldur gleyma því að aðrir stjórnlagadómstólar í Evrópu hafa áður komist að sams konar niðurstöðu. Það hefur þýski stjórnlagadómstólinn hvað eftir annað gert og sömuleiðis í Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Danmörku og svo framvegis.“

Hvað er þá málið?

„Þessi deila hófst með dómi stjórnlagadómstólsins um fóstureyðingar fyrir réttu ári. Á málinu geta menn haft ýmsar skoðanir, en í dómnum var vísað til afdráttarlausra stjórnarskrárákvæða um friðhelgi mannslífsins. Þá er deilan um hvenær mannslífið hefst og þá vandast í því, þar sem Pólland er að miklu leyti kaþólskt land og mistök að líta fram hjá því.“

Gagnrýnendur benda á að stjórnarflokkurinn hafi skipað dómara sér hliðholla í réttinn.

„Dómarar í hann eru valdir með nákvæmlega sama hætti og verið hefur allar götur frá 1989, en þingið velur þá. Þess vegna hafa þar oft verið dómarar sem taldir eru hinnar og þessarar skoðunar, en þeir dæma eftir stjórnarskránni og um það er ekki deilt.

Hins vegar er deilt um það hvort í Póllandi sé það pólskt dómsvald og pólsk stjórnarskrá sem ráði, eða hvort Evrópurétturinn sé þeim æðri. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slík mál koma fyrir réttinn, það gerðist líka 2005 og aftur 2010 þegar allt aðrir dómarar skipuðu réttinn, en niðurstaða þeirra var hin sama um gildi stjórnarskrárinnar.“

Hver er þá munurinn?

„Munurinn er sá að nú vill Evrópusambandið setja sig ofar fullveldi Póllands og á það er ekki hægt að fallast.“

Ekki á förum úr ESB

Þarna eru fleiri mál sem hafa valdið úlfúð í Brussel og víðar, t.d. um réttindi kynsegin fólks, tjáningarfrelsi og fleira. Hefur Pólland anað út í menningarstríð við önnur lönd ESB?

„Mögulega, en í Brussel verða menn samt sem áður að sætta sig við að skoðanir Pólverja séu eins og þær eru. Þær kunna að breytast með tímanum, en hér erum við samt, hér og nú.“

Þið eruð ekkert á förum þegar 85% styðja aðild?

„Nei, alls ekki. Við eigum heima í Evrópusambandinu og þar viljum við vera.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert