Ræða hugmyndir um nýjan golfvöll

Egilsstaðir.
Egilsstaðir. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Golfklúbbur Fljótsdalshéraðs hefur óskað eftir því við byggðaráð Múlaþings að teknar verði til skoðunar á ný hugmyndir um framtíðarstaðsetningu nýs golfvallar við Egilsstaðir.

Fram kemur í fundargerð ráðsins að það felur sveitarstjóra að boða fulltrúa stjórnar golfklúbbsins til fundar með byggðaráði til að ræða hugmyndirnar.

Of há leiga og þörf á lagfæringum

Ekkjufellsvöllur hefur frá stofnun golfklúbbsins fyrir yfir 40 árum verið á landi sem er í einkaeigu, rétt við Fellabæ. Kjartan Ágúst Jónasson, formaður klúbbsins, segir mikla þörf á nýju svæði undir golfvöll. Hann segir leiguna alltof háa á núverandi landi og að hún sé að lama klúbbinn. Tækjabúnaðurinn er heldur ekki nægilega góður og eyða þyrfti fúlgum fjár í að lagfæra völlinn. Leggja þyrfti nýtt vökvunarkerfi frá grunni og endurbyggja helming flata.  

Eyvindará væri góður kostur 

Fyrir nokkrum árum síðan var níu holu golfvöllur teiknaður rétt utan við Eyvindará en staðsetningin var ekki samþykkt af sveitarfélaginu. Kjartan Ágúst segir golfklúbbinn falast eftir landsvæði sem er þegar í eigu sveitarfélagsins og því sé staðsetningin við Eyvindará góður kostur.

„Það er nóg af landi hérna en megnið af því er í einkaeigu. Það þyrfti þá að kaupa land undir völlinn,“ segir hann, en um 80 manns eru í Golfklúbbi Fljótsdalshéraðs.

Spurður hvað nýr golfvöllur myndi kosta segir hann það fara eftir því hversu hratt yrði farið í framkvæmdir. „Það er hægt að eyða fleiri hundruðum milljóna og gera þetta hratt en svo með aðeins meiri tíma þá kostar þetta aðeins minna,“ segir hann og tekur fram að málið sé enn á algjöru frumstigi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert