Suðurverk átti eina tilboðið í hafnarbætur

Þorlákshöfn.
Þorlákshöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Hafnarstjórn Þorlákshafnar hefur samþykkt að taka eina tilboðinu sem barst í umfangsmiklar hafnarbætur í sveitarfélaginu. Það var frá Suðurverki hf. í Kópavogi og hljóðaði upp á tæpar 2.356 milljónir króna og var 102,7% af kostnaðaráætlun. Stefnt er að því að ganga frá samningnum á næstu vikum.

Verkið felst í lengingu Suðurvarargarðs um 250 metra, rifi harðviðartunnu á garðsenda og undirbúningi á færslu og snúningi Suðurvararbryggju með byggingu brimvarnargarðs og niðurbroti Suðurvararbryggju og dýpkun bryggjustæðis.

Verkinu er skipt upp í sex áfanga og verði að fullu lokið 1. desember 2023. Hlutur ríkisins í verkinu er fjármagnaður á samgönguáætlun og fjármálaáætlun en hafnarsjóður Þorlákshafnar greiðir hluta kostnaðar. Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að verkið var auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í greinargerð með deiliskipulagsbreytingu vegna verksins kemur fram að flutningar um höfnina í Þorlákshöfn hafa aukist mjög síðustu ár en sökum smæðar eiga stór skip erfitt með að athafna sig innan hennar. Eins er öldulag innan hafnarinnar ekki eins og best verður á kosið við vissar veðuraðstæður. Tilraunir með öldulíkan sýni að úr þessu má bæta með einföldum aðgerðum, þ.e. Suðurvararbryggja endurbyggð og viðlegukanti snúið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert