Þórólfur segir að það sé ekki til nein töfralausn

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Arnþór

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að því miður séu hertar takmarkanir það eina sem getur heft útbreiðslu kórónuveirunnar innanlands. 

Sem fyrr sé það, samhliða persónubundnum sóttvörnum, það eina sem bítur á veirunni.

„Við höfum náttúrurlega alltaf og erum stöðugt að hamra á þessum persónubundnu sóttvörum og biðla til fólks og við verðum að gera það núna, að biðla til fólks að gera það sem til þarf svo minnka megi áhættuna á smiti,“ segir Þórólfur og bætir við:

„Okkur hefur ekki tekist fram að þessu að takmarka útbreiðslu veirunnar bara með persónubundnum sóttvörnum, við höfum alltaf þurft að grípa til samfélagslegra takmarkana til að stoppa smitin af og auðvitað er ég bara að skoða það út frá þessu. Ég er þó ekki kominn með neinar tillögur um það ennþá.“

Þung staða á Landspítala verður þyngri ef ekkert er gert

Þórólfur segir að faraldurinn sé sannarlega í veldisvexti innanlands, sem og raunar víðar t.d. í Evrópu, og það verði hreinlega að bregðast við til þess að forða Landspítala frá neyðarástandi. 

Spurður um stöðuna á spítalanum svarar Þórólfur að líklega verði stjórnendur hans að svara fyrir það, en sóttvarnalæknir segir þó:

„Ég skynja það að staðan er þung á Landspítalanum og þeir hafa sagt það opinberlega. Það er verið að aflýsa og fresta ýmsum aðgerðum og það er verið að endurskipuleggja deildir og það skapar vandamál fyrir alls konar starfsemi sem spítalinn þarf að inna af hendi, sem kemur þá niður á alls konar sjúklingahópum – ekki bara Covid,“ segir Þórólfur og heldur áfram um stöðu faraldursins:

„Þetta er bara það sem við erum að horfa upp á og þetta er það sem var talað um í sumar þetta er það sem er í uppsiglingu núna og ég spyr bara: Hvenær ætla menn að læra af reynslunni? Hvænær ætla menn að sjá stöðuna eins og hún er?“

mbl.is

Bloggað um fréttina