Gerðu flest mistökin í bókinni

Jón Snorri telur að KSÍ hafi gert flest þau mistök …
Jón Snorri telur að KSÍ hafi gert flest þau mistök sem rannsóknir í krísustjórnun mæla gegn. Samsett mynd

Jón Snorri Snorrason, dósent í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst, telur að Knattspyrnusamband Íslands hafi ítrekað gert mistök í meðhöndlun á þeirri krísu sem kom upp í lok sumars. 

Segir hann aðgerðarleysi og skort á viðbragðsáætlun hafa gert það að verkum að málið varð alvarlegra og krísan stigmagnaðist.

Jón Snorri er einn af þeim fjölmörgu sem halda erindi á Þjóðarspeglinum, árlegri ráðstefnu á sviði félagsvísinda, í dag en streymt verður frá henni á vefsíðu Háskóla Íslands.

Þar mun hann fjalla almennt um krísu og krísustjórnun og leggur hann KSÍ málið fram sem undirliggjandi dæmi um það.

Mikil umræða hefur skapast í kringum Knattspyrnusambandið í kjölfar þess að upp komst að fyrrverandi formaður sambandsins, Guðni Bergsson, hefði farið með rangt mál í Kastljósviðtali þegar hann neitaði því staðfastlega að tilkynningar um kynferðisbrot af hálfu landsliðsmanna hefði borist sambandinu.

Í kjölfarið sagði hann upp og nokkru seinna stjórn KSÍ líka. Síðan þá hefur málið undið upp á sig og fyrr í þessum mánuði voru sex landsliðsmenn ekki með í hóp vegna ásakana um ofbeldis- og kynferðisbrot. 

Telur Jón Snorri ástandið sem ríkir nú innan knattspyrnusambandsins, með tilheyrandi afleiðingum fyrir karlalandslið Íslands, vera dæmi um krísu. Það hefur verið skilgreint sem veruleg truflun, sem veldur umfangsmikilli fjölmiðlaumfjöllun og hefur áhrif á hefðbundna starfsemi skipulagsheildar og einstaklinga.

„Nú er komin staða sem að er að trufla starfsemi sambandsins, og trufla mögulega frammistöðu innan landsliðsins. Orðspor og ímynd KSÍ er sannarlega að bíða hnekki og krefst skjótra viðbragða. Eins og þetta þróaðist þá fer maður að reyna að átta sig á því, hvað hefði verið hægt að gera?“

Hunsuðu vandamálið og brugðust of seint við

Að sögn Jóns Snorra brást knattspyrnusambandið illa og seint við þeirri stöðu sem kom upp og gerðu flest þau mistök er rannsóknir á krísustjórnun mæla gegn.

„Það eru ákveðnir þættir sem að mega alls ekki gerast ef þú lendir í krísum. Þú ert að hunsa vandamálið, þú ert í afneitun, þú svarar seint og illa, þú ert tvísaga, heldur upplýsingum leyndum, ert að segja hálfan sannleik. Þetta eru gryfjurnar sem KSÍ því miður féll í.

Það voru allt of margir að tjá sig. Við sjáum það til dæmis hjá almannavörnum núna ef það kemur eitthvað upp á þá er bara einn talsmaður. Þarna voru allir að tjá sig, formaður KSÍ var að tjá sig, framkvæmdastjóri, einstaka leikmenn, jafnvel þjálfarateymi. Mönnum bar ekki saman, sumum urðu tvísaga. Þetta var allt að skelfilegu máli fyrir KSÍ.“

Hefði verið hægt að afstýra umfangsmikilli krísu

Að sögn Jóns Snorra hefði verið hægt að koma í veg fyrir að málið þróaðist á þennan veg, meðal annars með því að bregðast við þegar að ábendingar um kynferðisofbeldi fóru að berast. Hefðu þá stjórnendur mátt gera sér grein fyrir alvarleika og umfangi vandamálsins og komið upp viðbragðsáætlun sem hægt hefði verið að fylgja. Það gerðist þó ekki.

Um leið og vandamálið komst síðan upp á yfirborðið, og fjölmiðlar farnir að vekja athygli á því, þá stigmagnaðist krísan og varð óviðráðanlegri.

„Í þessu tilfelli þá er þetta ekki óvæntur atburður. Hann var búinn að vera kraumandi undir yfirborðinu án þess að brugðist var við. Við vitum ekki nákvæmlega hvað gerðist innanhúss en það er alveg ljóst að það er einhver stjórnunarvandi sem átti sér stað. Það er aðgerðarleysi sem verður. Það verður áhugavert að sjá á hverju þetta byggðist. Var það á tómlæti eða röngu gildismati? Áttuðu menn sig ekki á því að þetta gæti orðið að krísu? Hvað varð til þess að menn tóku þetta ekki alvarlega?“

Finnst þér þetta komið í réttan farveg núna?

„Ég er ekki alveg viss um það. Það var gott að skipa þessa úttektarnefnd og ef maður les hvað hún á að gera þá er það að fara í gegnum atburðarásina og komast að því hvort það séu fleiri innan KSÍ sem hafa beitt kynbundnu eða kynferðisofbeldi.

Síðan á nefndin að koma með viðbrögð við þessu og leggja tillögu til úrbóta. Ég hefði viljað sjá einhvern sem hefur reynslu af almannatengslum, einhvern sem hefur þekkingu af krísustjórnun. Ég óttast að þetta verði bara staðreynda upptalning og kannski ekki tillögur til úrbóta með viðbragðsáætlun.“

Krísa KSÍ ekki yfirstaðin

Aðspurður segir Jón Snorri krísuna ekki yfirstaðna og telur hann að áhugavert verði að fylgjast með þróuninni sem mun eiga sér stað eftir helgi þegar nýr landsliðshópur verður kynntur. Yfirleitt hafa miklar vendingar átt sér stað í kjölfar þess, enda óljóst hverjir mega og mega ekki vera í hóp, og hvað það er sem ræður því.

„Við erum enn í krísunni. Þetta virðist ekki ætla að taka neinn enda enn sem komið er. Við eigum eftir að sjá það núna. Eftir helgi á að velja nýjan landsliðshóp og við sjáum að þar hefur krísan haldið áfram að magnast eftir því hverjir eru valdir í hópinn og sérstaklega hverjir eru ekki valdir í hópinn. Þar er mjög óljóst í rauninni hverjir eiga að vera valdir og hverjir ekki.

 Eins og við höfum séð þá hefur verið ágreiningur um það hvort að velja eigi menn í landsliðið sem eru ekki undir lögreglurannsókn. Á að velja þá á meðan að málið er í umræðunni í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum og svo framvegis. Þetta er allt á reiki í raun og veru.“

mbl.is