Grunur um að þremur hafi verið byrluð ólyfjan

Lögreglubílar á Akureyri.
Lögreglubílar á Akureyri. mbl.is/Þorgeir

Grunur leikur á um að þremur einstaklingum hafi verið byrluð ólyfjan á skemmtistað á Akureyri í nótt. Í einu tilvikinu var sjúkrabíll kallaður til á skemmtistaðinn þar sem kona lá nánast meðvitundarlaus þar fyrir utan. Í hinum tveimur tilvikunum, þar sem um karl og konu var að ræða, voru það vinir þeirra sem fluttu þau á slysadeild og létu lögregluna vita.

Að sögn Árna Páls Jóhannssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, er málið komið í rannsókn hjá lögreglunni en enginn liggur undir grun sem stendur. 

Spurður segir hann að einnig hafi leikið grunur á byrlun ólyfjanar á Akureyri um síðustu helgi og fór viðkomandi á sjúkrahús. Ekkert hefur komið út úr þeirri rannsókn.

Lögreglustöðin á Akureyri.
Lögreglustöðin á Akureyri. mbl.is/Sigurður Bogi

Fólk orðið meðvitaðra

Árni Páll segir lögregluna eiga eftir að athuga með eftirlitsmyndavélar á skemmtistaðnum í nótt og ræða við vitni. Hann segir umfjöllunina að undanförnu um byrlun ólyfjan virðast hafa orðið til þess að fólk er orðið meðvitaðra um þennan vanda og er farið að fylgjast betur með vinum sínum ef þeir „verða eitthvað skrítnir, eins og kom í ljós í nótt“ þegar vinum tveggja sem fóru á slysadeild fannst ástand þeirra óeðlilegt og fóru með þau á slysadeild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert