Hrakningar gassans frá Gunnarsstöðum

Starfsmenn Náttúrustofu Austurlands hafa í haust, nánast með öndina í hálsinum, fylgst með flugi grágæsa yfir hafið til vetrarstöðva í Skotlandi. Sérstaklega hefur athyglin beinst að gassa sem ýmist er kallaður Ragnar eða Gunnarsstaðagassinn. Í annarri tilraun náði hann heilu og höldnu til vetrarstöðvanna í Orkneyjum, en hafði þá lagt á sig mun lengra flug en gengur og gerist meðal grágæsa.

Lenti í öflugum mótvindi

Ragnar er með senditæki um hálsinn og sendir upplýsingar um staðsetningu hverju sinni. Hann lagði af stað úr Þistilfirði að morgni 5. október og dvaldi næturlangt í Breiðdalseyjum. Hann hélt síðan áfram 6. október og þegar hann var 320 kílómetra suðaustur af Íslandi, 240 km vestur af Færeyjum og 512 km í beinni loftlínu frá Þistilfirði mætti honum öflugur mótvindur. Veðrið, frekar en heimþrá, gerði það að verkum að gæsin sneri aftur til Þistilfjarðar næsta dag eftir næturdvöl á sjónum. Á 70 klukkustundum fór Ragnar um 1.100 kílómetra.

Eftir að hafa hvílst á heimaslóðum í viku hélt Ragnar aftur af stað klukkan níu að kvöldi laugardagsins 16. október og hvíldist aðeins á sjónum suðaustur af Íslandi. Enn var haldið áfram og með viðkomu á Straumey í Færeyjum og Hjaltlandseyjum flaug Ragnar til Orkneyja, þar sem gæsin dvelur nú. Ragnar var um 90 tíma í seinni ferðinni og lagði að baki um 1.200 kílómetra.

Á 10-12 tímum til Orkneyja

Greint hefur verið frá ferðum Ragnars á heimasíðu Náttúrustofu Austurlands og á Austurfrétt undanfarið. Í samtali við Morgunblaðið segir Hálfdán Helgi Helgason, vistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, að það sé þekkt að gæsir leggi af stað á vetrarstöðvarnar eins og til að kanna aðstæður, en snúi síðan við. Hins vegar segist hann ekki þekkja þess dæmi að gæs fljúgi nánast til Færeyja og snúi svo til baka eins og Ragnar gerði.

Gæsir virðast vera þungar á flugi, en eigi að síður fara þær hratt yfir. Í því sambandi nefnir Hálfdán að gæsin Helga, sem var merkt í Reyðarfirði, fór á 12 tímum til Orkneyja, um 900 kílómetra, án þess að stoppa. Hún hefur að líkindum haft góðan meðbyr og meðalhraðinn var 72 kílómetrar á klukkustund. Annað dæmi er um gassa sem var merktur í Fáskrúðsfirði og flaug á 10 tímum til Orkneyja.

Í ár var ráðgert að merkja hérlendis á þriðja tug gæsa með senditækjum í samstarfsverkefni Náttúrustofu Austurlands, Náttúrufræðistofnunar, Verkís og Nature Scot. Ellefu voru merktar á austursvæði frá Víkingavatni í Kelduhverfi suður í Berufjörð. Tvær þeirra eru dauðar, en hinar níu hafa skilað sér til vetrarstöðvanna. Þær sem voru merktar á vestursvæðinu eru enn allar á landinu.

Sprettharðir einstaklingar

Hálfdán segir ekki hlaupið að því að merkja gæsir og í sumar hafi menn verið helst til seint á ferðinni og gæsirnar við það að verða fleygar eftir fjaðrafelli. Hann hafi því fengið til liðs við sig sprettharða einstaklinga sem ekki hafi vílað fyrir sér að vakna um miðja nótt. Á þeim tíma sé best að komast að gæsunum, sem séu varar um sig og ótrúlega fljótar í förum verði þær fyrir áreiti. Á ýmsu hafi gengið við merkingarnar og oft hafi gæsirnar haft betur og komist undan.

Meðal þeirra sem lögðu lið við merkingarnar nefnir hann bændur og búalið á nokkrum bæjum, en einnig framámenn í fuglafræðum. Svo dæmi séu tekin er umræddur ævintýragassi nefndur eftir Ragnari Sigfússyni á Gunnarsstöðum og Alli bar nafn Aðalsteins Snæþórssonar, líffræðings á Víkingavatni, en gassinn Alli komst ekki yfir hafið á leið á vetrarstöðvarnar.

Hálfdán viðurkennir að hann kíki daglega á tækin til að sjá hvar gæsirnar halda sig. Hann sé ekki áhugamaður um fótbolta, en segist ímynda sér að hann fylgist með gæsunum eins og fótboltaáhugamaður með sínum uppáhaldsleikmönnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert