Rannsaka blóðsýni vegna gruns um byrlun ólyfjanar

Í einu málinu sem lögreglan er nú með til rannsóknar …
Í einu málinu sem lögreglan er nú með til rannsóknar var sjúkra­bíll kallaður til á skemmti­staðinn þar sem kona lá nán­ast meðvit­und­ar­laus þar fyr­ir utan. Ljósmynd/Colourbox

Rannsókn stendur nú yfir á máli þar sem grunur leikur á um að þremur einstaklingum hafi verið byrluð ólyfjan á skemmtistað á Akureyri aðfaranótt sunnudags. Þetta staðfestir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is.

„Það voru tekin blóðsýni og það þarf að setja þau í rannsókn og ræða við fólk,“ segir hún.

Árni Páll Jóhannsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, sagði í samtali við mbl.is í gær, að einnig hafi leikið grun­ur á um byrlun ólyfjan­ar á Ak­ur­eyri um síðustu helgi og að viðkomandi hafi farið á sjúkrahús. Innt eftir því segir Páley það mál einnig vera í skoðun.

„Þetta er bara allt í skoðun.“

Spurð segist hún ekki vita hvenær niðurstöður á rannsókn á blóðsýnum muni liggja fyrir.

Þá gat hún ekki svarað því hvort umrædd mál hafi öll átt sér stað á sama skemmtistaðnum né því hvort búið væri að skoða myndefni úr eftirlitsmyndavélum af skemmtistöðunum og ræða við vitni.

„Þetta er svo nýtt að það er eiginlega ekkert hægt að segja um stöðuna. Það er ekki gott fyrir rannsóknarhagsmunina. Við viljum engu offra þeim neitt í þessu.“

Fleiri mál af þessu tagi hafi þó ekki komið upp á Akureyri um helgina, að sögn hennar.

Í einu málinu sem lögreglan er nú með til rannsóknar var sjúkra­bíll kallaður til á skemmti­staðinn þar sem kona lá nán­ast meðvit­und­ar­laus þar fyr­ir utan. Í hinum tveim­ur málunum, þar sem um karl og konu var að ræða, voru það vin­ir þeirra sem fluttu þau á slysa­deild og létu lög­regl­una vita.

mbl.is