Vill ekki leiða starf með „orðljótum sósíalistum“

Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu.
Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu. Skjáskot/Rúv

Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, hefur engan áhuga á því að verða formaður félagsins vegna orðræðunnar sem viðgengst innan forystu þess. 

Spurður hvort hann vilji taka við stjórnartaumunum í þessu næstfjölmennasta stéttarfélagi landsins segir Guðmundur:

„Nei, ég hef engan sérstakan áhuga fyrir því. Það er komið svo mikið af fólki í kringum þessa sósíalista, þetta er svo orðljótt og maður einhvern veginn áhuga á að sökkva sér í þetta hyldýpi af orðaflaumi sem er ekki fallegur.“

Gustað hefur um yfirstjórn félagsins frá því seint í fyrrakvöld, þegar formaður þess, Sólveig Anna Jónsdóttir, tilkynnti opinberlega um afsögn sína. Daginn eftir sagði Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, starfi sínu lausu. 

Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður Eflingar, og Viðar Þorsteinsson, fráfarandi …
Sólveig Anna Jónsdóttir, fráfarandi formaður Eflingar, og Viðar Þorsteinsson, fráfarandi framkvæmdastjóri félagsins. mbl.is/​Hari

Í gærkvöldi var Guðmundur gestur Kastljóss þar sem hann kallaði meðal annars eftir því að Agnieszka Ewa Ziól­kowska, varaformaður Eflingar, segði af sér. Spurður um viðbrögð við þeim orðum segir Guðmundur að þau hafi aðallega birst honum á netinu og meðal annars frá formanninum sjálfum, Sólveigu Önnu, sem vandaði honum ekki kveðjurnar. 

„Ekki nema bara viðbrögð á netinu og viðbrögð frá Sólveigu, þennan vanalega fúkyrðaflaum, ekki um það sem málið snerist um heldur um eitthvað allt annað og þá helst að ég sé með einhverjar annarlegar hvatir og að ég gangi erinda fyrir einhverjar klíkur úti í bæ og ég veit ekki hvað og hvað,“ segir Guðmundur, spurður um viðbrögð í sinn garð. 

Stríðsöxin verði ekki grafin snúi Sólveig aftur

Guðmundur segir að hann telji að málið hefði ekki sprungið jafnmikið í loft upp og raun bar vitni ef fengnir hefðu verið fagaðilar til þess að leita sátta milli stjórnar Eflingar og starfsfólk á skrifstofu félagsins, eins og hann segist hafa lagt til að yrði gert. Guðmundur telur að erfitt yrði að leysa deiluna ef Sólveig og stjórn hennar sæti lengi.

„Til að leysa þessi mál þó svo að yrði boðað til kosningar, og við skulum gefa okkur það að Sólveig fái jafnvel bara umboð til að leiða aftur, að þá stendur vandamálið enn eftir og það er skrifstofan. Hún [Sólveig] er búin að gera svo mikil mistök varðandi skrifstofuna að ég er ekki viss að það myndi ganga, það verður að fá einhvern botn í þessi vandamál mill Sólveigar og starfsmanna Eflingar. Vegna þess að við megum ekki gleyma því að starfsfólk Eflingar er hryggjarstykkið í þessari starfsemi allri.“

Og það liggur jafnvel fyrir að starfsfólk Eflingar hafi ekki lagt upp með að Sólveig viki sem formaður. 

„Nei, alls ekki,“ segir Guðmundur. „En hún stillir þessu í rauninni sjálf þannig upp og hún í sjálfu sér er arkitektinn að þessu öllu saman og ef hún hefði farið að þessu eins og ég lagði til með í upphafi þá væri þetta vandamál ekki til staðar. Þá hefði þetta bara farið í réttan farveg, að ég tel, og allir störfuðu sáttir og með markmiðið eina að gera vel. Þetta er í raun sáraeinfalt en það er búið að búa til svo mikla vitleysu og dellu úr þessu og umræðan er svo langt, langt frá því að vera á því plani sem hún á að vera.“

Ekki skylda stjórnarmanns að segja bara já og amen

Spurður um framhald málsins segir Guðmundur að hann viti hreinlega ekki hvert það verði. Hann hefði frekar viljað að málið færi í skynsamlegri farveg og þannig hefði mögulega mátt koma í veg fyrir að allt springi. 

„Aðalmálið er, eins og ég segi, vinnubrögðin voru svo kolröng og menn geta bara lært af því. Menn eiga bara að beygja á stolti sínu og viðurkenna að þeir gerðu mistök. En þetta fólk, sem fylgir henni Sólveigu og hún er náttúrulega fremst í flokki, er svo duglegt við að nota ljót orð og hinir fylgja á eftir haldandi að þetta sé málefnum til framdráttar að ausa drullu yfir aðra hægri vinstri.“

Guðmundur lýsir því að hann hafi verið eini stjórnarmaðurinn sem sagði ekki alltaf bara já og amen við því sem formaður stjórnarinnar, Sólveig Anna, sagði og lagði til. Hann segist trúa því að umboðið, sem félagsmenn veittu honum með því að kjósa hann til stjórnar, felist ekki í því að gagnrýna aldrei formanninn. 

„Ég sem stjórnarmaður á fullan rétt á, og það er beinlínis skylda mín, að fylgja svona málum eftir þegar þetta er komið inn á borð stjórnar. En það er ekki skylda mín að fylgja einhverjum foringja og segja alltaf við já við öllu sem hún segir. Menn verða að geta gagnrýnt formanninn og geta ekki alltaf tekið því sem svo að það sé einhver neikvæð gagnrýni, eins og ég hafi alltaf verið með einhverja neikvæða gagnrýni, langt því frá, ég sagði ekki bara alltaf já.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert