Mál og menning aftur á Laugaveg

Mál og menning opnar á ný.
Mál og menning opnar á ný.

„Ég get ekki neitað því að fyrir mig sem stjórnarformann í bæði Máli og menningu og Forlaginu er mikið gleðiefni að byrja aftur bóksölu á þessum stað,“ segir Halldór Guðmundsson bókaútgefandi. Margir munu eflaust gleðjast yfir þeim tíðindum að Mál og menning mun í vikulokin opna að nýju bókabúð á Laugavegi 18. Sextíu ár eru síðan forlagið opnaði þar fyrst bókabúð og var hún um áratugaskeið ein af vörðum menningarlífsins í borginni. Á síðari árum höfðu aðrir tekið við rekstrinum og Bókabúð Máls og menningar var á endanum lokað þegar kórónuveirufaraldurinn skall á.

Fyrr á árinu var opnaður tónleikastaður í húsinu og samhliða því opnaði fornbókaverslunin Bókin útibú á tveimur neðstu hæðum þess. Bókinni var lokað þar fyrir um mánuði og tekur Mál og menning við neðstu tveimur hæðunum.

Halldór segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi verið hrifinn af þeirri starfsemi sem nú er í húsinu, það sé menningarhús með lifandi tónlist og bókabúðin muni passa vel inn. „Forlagið er stærsta bókaútgáfa landsins og því er ekki að neita að við viljum gjarnan sjá fleiri útsölustaði fyrir bækur. Þarna var í áratugi rekin ein helsta bókabúð landsins og ég er viss um að margir verði fljótir að rifja upp spor sín þangað. Ekki síst fyrir jólin en stemningin í húsinu á þeim tíma er algerlega einstök.“

Mál og menning bókabúð verður formlega opnuð á föstudagsmorgun og þar verða á sjötta þúsund titla í boði frá öllum útgefendum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »