Sólveig búin að segja af sér sem varaforseti ASÍ

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afsögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur, fyrrverandi formanns Eflingar, sem 2. varaforseti ASÍ, barst sambandinu í gær. Hefðbundinn miðstjórnarfundur ASÍ verður haldinn í dag en málefni Eflingar eru ekki formlega á dagskrá.

Þetta segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is.

Stjórnarfundur Eflingar á morgun

Það er í hendi stjórnar Eflingar að ákveða með eftirmann Sólveigar sem varaforseti og verður stjórnarfundur haldinn hjá stéttarfélaginu á morgun, segir hún. 

„Við ætlum að fjalla um ýmislegt. Eflingarmál eru í sjálfu sér ekki á formlegri dagskrá en auðvitað munum  við ræða þau eins og við gerum um það sem kemur upp hverju sinni,“ segir Drífa, spurð út í efni miðstjórnarfundarins, sem hefst klukkan 12.30.

Sólveig Anna Jónsdóttir.
Sólveig Anna Jónsdóttir. Ljósmynd/Efling

„Rosalega mörg símtöl“

Hún segir það ekki gerast sjálfkrafa að næsti formaður Eflingar verði varaforseti ASÍ og segir að sambandið muni taka sér tíma í að afgreiða það mál.

„Við höfum gengið út frá því að varaformaðurinn fari í embætti formanns lögum samkvæmt,“ bætir hún við um stöðuna sem er uppi. 

Drífa ræddi í síma við Sólveigu Önnu á mánudaginn. Spurð hvort þær hafi rætt málin síðan þá segist hún ekkert vilja tjá sig um það. „Ég er búin að eiga rosalega mörg símtöl við rosalega marga. Okkar hlutverk er að halda félaginu gangandi og styðja við bæði stjórn og starfsfólk til þess að það geti þjónað sínum tilgangi,“ greinir hún frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert