1,6 milljarða framkvæmdir við Fossvogsskóla

Börn ganga til útikennslu í Fossvogsskóla síðastliðið vor. Mygla í …
Börn ganga til útikennslu í Fossvogsskóla síðastliðið vor. Mygla í húsnæði skólans hefur valdið vandræðum um nokkurn tíma. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í dag að veita umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar heimild til útboðs á lagfæringum og endurbótum á Fossvogsskóla.

Frumkostnaðaráætlun sem unnin var af verkfræðistofunni Eflu hljóðar upp á rúmlega 1,6 milljarða króna.

Útboð verður á stýriverktöku þar sem einn aðalverktaki mun koma til með að sjá um stjórnun vinnustaðar auk samræmingar og stýringu á vinnu undirverktaka.

Tvíþættar framkvæmdir

Þá segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að framkvæmdirnar séu tvíþættar. Annars vegar er um að ræða aðgerðir til að bæta innivist m.a. bætt raka- og loftgæði.

Hins vegar er um að ræða aðgerðir til að færa húsnæðið í nútímalegt horf bæði hvað varðar byggingatækni og kennsluhætti.

Þá er áætlað að allt skólastarf í Fossvogsskóla verði í Fossvogsdal eigi síður en haustið 2022. Börnin muni það haustið geta stundað nám í tveimur uppgerðum byggingum, Austurlandi og Vesturlandi, og að einhverjum hluta í einingarhúsum á lóð skólans. Framkvæmdum við Meginland mun þá ljúka haustið 2023, ef marka má áætlanir.

mbl.is