Úr takti við raunveruleika eldri borgara

Hækkun árskorta Strætó kemur illa við veski margra eldri borgara.
Hækkun árskorta Strætó kemur illa við veski margra eldri borgara. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst þetta bara ekki hægt,“ segir Ingibjörg H. Sverrisdóttir, formaður Félags eldri borgara, um hækkun árskorts Strætó fyrir aldraða. Samkvæmt nýrri gjaldskrá, sem tekur gildi 16. nóvember, hækka tólf mánaða kortin úr 25 þúsund krónum upp í 40 þúsund krónur.

Stakt gjald aldraðra mun áfram vera 245 krónur.

Hún segir hækkun árskorts úr takti við greiðslugetu eldri borgara og að 60% hækkun á einu bretti sé full brött.

Ingibjörg segist hafa fengið símtöl og tölvupósta vegna málsins frá ósáttum eldri borgurum. Sjálf hefur hún haft samband við Strætó vegna málsins.

„Ég talaði við framkvæmdastjórann sem sagðist hafa átt von á kvörtunum en að svona væri þetta bara,“ segir Ingibjörg en hún sendi einnig formlegan tölvupóst og óskaði eftir því að stjórn Strætó tæki málið fyrir.

„Þetta fólk sem er í stjórn Strætó, sem tekur ákvörðun um þessa hækkun, það er eins og það sé ekki tengt raunveruleika eldri borgara,“ segir Ingibjörg.

mbl.is