Miðflokksmönnum slétt sama um Facebook-bilunina

Þessi forrit lágu niðri um stund í október sem og …
Þessi forrit lágu niðri um stund í október sem og Messenger. AFP

Samfélagsmiðlarnir Facebook, Instagram, WhatsApp og Messenger lágu niðri í rúmar sex klukkustundir nýverið en samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup hafði það lítil áhrif á Íslendinga. Bilunin hafði mest áhrif á ungt fólk og meiri áhrif á konur en karla. 

Hátt í átta af hverjum tíu sögðu bilunina hafa haft lítil eða engin áhrif á þá en einn af hverjum tíu sagði hana hafa haft mikil áhrif. Þá sagði einn af hverjum tíu að bilunin hefði hvorki haft mikil né lítil áhrif á þá.

Fjórðungur fólks undir þrítugu sagði að bilunin hefði haft mikil áhrif á það á meðan tæplega 3% fólks yfir sextugu var sama sinnis.

Menntafólk varð fyrir meiri áhrifum

Íbúar höfuðborgarsvæðisins urðu fyrir meiri áhrifum af biluninni en íbúar landsbyggðarinnar.

Þá hafði hún meiri áhrif á fólk sem hefur lokið framhalds- eða háskólaprófi en á þá sem einungis hafa lokið grunnskólaprófi. 

Flestir söknuðu Messenger

Þá mældist einnig munur á milli fólks eftir því hvaða flokk það kysi ef gengið yrði til Alþingiskosninga nú. Mest áhrifin hafði bilunin á þá sem kysu Viðreisn eða Pírata eða fimmtung hópsins. Einungis 3% kjósenda Miðflokksins sögðu að bilunin hefði haft mikil áhrif á þá.

Hátt í helmingur saknaði engra af miðlunum á meðan biluninni stóð en um 3 af hverjum 10 söknuðu samskiptaforritsins Messenger, 14% söknuðu Facebook og nær 11% Instagram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert