Svigrúm er til að bregðast við gosi

Einn af hnitpunktunum sem notaðir eru í flugi er nálægt …
Einn af hnitpunktunum sem notaðir eru í flugi er nálægt Heklu.

„Niðurstaða áhættumats er að það sé nægur tími fyrir okkur í Flugstjórnarmiðstöðinni til að bregðast við á réttan hátt og halda uppi öryggi verði eldgos. Við sem sérfræðingar höfum ekki áhyggjur af þessu,“ segir Árni Guðbrandsson, sérfræðingur hjá Isavia ANS. Það er dótturfyrirtæki Isavia ohf. og annast flugleiðsöguhlutann innan samstæðunnar. 

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emerítus, hefur lýst yfir áhyggjum sínum af því að farþegaflugi sé beint yfir Heklu því hún geti gosið með mjög skömmum fyrirvara. Hann segir stuttan fyrirvara á Heklugosum gera hana að varasömu eldfjalli.

„Það sem Páll vísar í eru hnit jarðarinnar og hnitpunkturinn 64°N og 20°W. Flug sem fara yfir hafið fljúga mikið eftir svona hnitum og þar á meðal er þessi punktur oft notaður,“ segir Árni. Punktur þessi er rétt við Leirubakka í Landsveit sem er í næsta nágrenni eldfjallsins Heklu. Árni segir að það fari eftir vindum í háloftunum hvort margar flugvélar leggi leið sína yfir þennan hnitpunkt hverju sinni. Hann bendir á að farþegaflugvélar fljúgi á tæplega 900 km hraða á klukkustund og séu því fljótar að bregðast við skapist einhver hætta.

Isavia ANS gerði áhættumat árið 2016 í samvinnu við náttúruvárdeild Veðurstofu Íslands. Áhættumatið heitir „Möguleg áhrif af eldgosi í Heklu með skömmum fyrirvara.“ Árni segir að samkvæmt áhættumatinu sé ekki talin þörf á að gera neinar breytingar á flugferlum eða flughnitum vegna farþegaflugs yfir hafið og mögulegrar vár vegna eldgoss á Íslandi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert