Fimm klukkustundir í sjálfheldu í Reynisfjöru

Ferðamenn í Reynisfjöru.
Ferðamenn í Reynisfjöru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkur viðbúnaður björgunarsveita var viðhafður þegar maður komst í sjálfheldu í Reynisfjöru í gærkvöldi.  

Um er að ræða ferðamann sem var einn á ferð að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Innlyksa í helli og flæddi að

 „Hann var einn á ferð og hafði orðið innlyksa í Reynisfjöru, í helli. Það hafði flætt að og verðri hafði tekið að versna frá því að hann lagði af stað,“ segir Davíð Már í samtali við mbl.is. 

Hann segir að þegar hafi verið orðið dimmt þegar útkallið barst björgunarsveitunum, en þá hafði maðurinn verið í sjálfheldu í um tvo tíma. Mikið myrkur og þó nokkur vindur og rigning hafi verið þegar viðbragðsaðilar héldu af stað. Útkallið barst um sjöleytið að kvöldi til.

„Það tókst að staðsetja hann og ná sambandi við hann nokkur fljótlega. Hann var vel búinn og á öruggum stað svo að ákveðið var að bíða eftir færi á að komast til hans,“ útskýrir Davíð Már. 

Varð ekki meint af

Óskað hafði verið verið eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar, og hún klár í flugtak, þegar skyndilega gafst færi á að komast að manninum. 

„Bæði lögreglumenn og björgunarsveitarmenn fylgdust með úr tveimur eða þremur áttum og svo gafst færi rétt um klukkan tíu. Björgunarsveitarmaður náði að komast yfir til mannsins og aðstoða hann á öruggan stað í Reynisfjöru. Þar með var útkallinu lokið,“ segir Davíð og bætir við að maðurinn hafi ekki verið slasaður eða orðið meint af.

Alls var maðurinn í sjálfheldu í um fimm klukkustundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert