Þarf heimild í lögum til að svipta barn frelsi

Skúli segir mikilvægt fyrir umboðsmann Alþingis að geta skoðað mál …
Skúli segir mikilvægt fyrir umboðsmann Alþingis að geta skoðað mál að eigin frumkvæði. mbl.is/Eggert

Umboðsmaður Alþingis bíður enn eftir svörum frá Hafnarfjarðarbæ við fyrirspurn þar sem óskað er eftir upplýsingum um aðskilnað barna frá samnemendum sínum og vistun í sérstökum rýmum í grunnskóla. Svarfrestur var til 1. nóvember en Hafnarfjarðarbæ var veittur viðbótar frestur til 15. nóvember. Reykjavíkurborg, Mosfellsbær og Akureyrarbær hafa þegar svarað umboðsmanni, ásamt mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Fram hefur komið í fréttum á síðustu vikum að það verklag tíðkist í einhverjum grunnskólum að skilja börn frá samnemendum og vista þau jafnvel ein í lokuðum rýmum í þeim tilgangi róa þau niður. Gjarnan er um að ræða börn með sérþarfir sem skortir úrræði í skólakerfinu. Eitt slíkt mál hefur verið kært til lögreglu.

Er þetta í annað sinn sem umboðsmaður Alþingis óskar eftir sambærilegum upplýsingum, en það var síðast gert í júní árið 2020. Málið var hins vegar látið niður falla þar sem svör viðkomandi sveitarfélaga þóttu ekki gefa tilefni til nánari skoðunar. Skúli Magnússon, núverandi umboðsmaður Alþingis, tók við starfinu í maí á þessu ári og kom því ekki að meðferð málsins á þeim tíma.

Fleiri ábendingar og meira afgerandi

„Ég held að það megi segja að þær ábendingar sem hafa borist núna séu fleiri og meira afgerandi en þá var um að ræða. Það að umboðsmaður bregðist við ábendingum foreldra með þessum hætti er til vitnis um að málið er tekið alvarlega og það er talin þörf á því að bregðast við. Þetta sýnir að það er mjög mikilvægt að umboðsmaður hafi svigrúm til að taka upp mál að eigin frumkvæði en sé ekki bundinn við það vegna fjárveitinga og aðbúnar að fjalla einungis um formlegar kvartanir,“ segir Skúli.

Ábendingar bárust umboðsmanni bæði í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla af málum barna sem vistuð hafa verið í sérstökum rýmum og einnig eftir að fréttir bárust af fyrirspurnum hans til stjórnvalda. Hann getur þó ekki sagt til um fjölda ábendinga eða að hvaða skólum þær lúta.

Alma Björk Ástþórsdóttir, stofnandi grasrótarhópsins Sagan okkar, sem berst fyrir réttindum barna með sérþarfir, sagðist í samtali við mbl.is á dögum fagna því mjög að umboðsmaður kallaði eft­ir þess­um upp­lýs­ing­um. Það eitt og sér varpaði ljósi á al­var­leika stöðunn­ar. 

„Maður velt­ir því líka fyr­ir sér hvers vegna umboðsmaður Alþing­is þurfi að biðja um þess­ar upp­lýs­ing­ar í annað sinn. Var um mis­skiln­ing að ræða eða var vilj­andi verið að halda upp­lýs­ing­um frá umboðsmanni? Ef svo er þá er það auðvitað mjög al­var­legt,“ sagði Alma í samtali við mbl.is. „Umboðsmaður Alþing­is er kannski að koma þess­um börn­um til bjarg­ar þegar stjórn­völd eru að bregðast,“ sagði hún jafnframt. 

Mikilvægt að geta tekið upp mál að eigin frumkvæði

Skúli tekur fram að ekki sé um formlegar kvartanir að ræða heldur sé málið skoðað að frumkvæði umboðsmanns í kjölfar ábendinga.

„Fólk getur haft samband við umboðsmann með ýmsum hætti. Það sem fólk kannski þekkir helst eru eiginlegar kvartanir en það er ekki um þær að ræða í þessum málum. Þetta eru óformlegar ábendingar og það er ekki verið að fara með þetta mál sem kvartanir einstaklinga heldur er umboðsmaður að taka þetta upp að eigin frumkvæði. Þá í sjálfu sér eru þessar ábendingar til hliðsjónar en það er ekki verið að leysa úr einstaka kvörtunum eða málefnum einstakra barna,“ útskýrir hann.

Skúli segir kvartanir ekki endilega koma frá þeim einstaklingum sem standa hvað höllustum fæti, heldur frekar þeim sem hafi aðstöðu til. Því leggur hann mikla áherslu á að umboðsmaður geti sinnt því hlutverki sínu að taka upp mál að eigin frumkvæði. „Sérstaklega þegar það er af einhverjum ástæðum erfiðleikum bundið að slíkar kvartanir komi fram, eins og er í þessu máli. Þetta er fólk sem kýs að koma ekki fram undir nafni og setja málið í formlegan farveg.“

Hlutverk stjórnvalda að grípa til aðgerða

Skúli segir málið það stutt á veg komið að hann geti ekki svarað því hvort einhverjar reglur hafi verið brotnar eða hvort svör stjórnvalda nú gefi tilefni til að skoða málið frekar. 

„Það er auðvitað ákvæði í stjórnarskrá Íslands, í fyrsta lagi að börn eigi rétt á menntun, og það er einnig ákvæði um að enginn verði sviptur frelsi sínu, nema með heimild í lögum. Svo eru hér alþjóðasamningar eins og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Þetta eru þessar almennu reglur sem gilda áður en við förum í nánari reglur sem gilda um grunnskólana sérstaklega og barnvernd. Á þessum tímapunkti þá nægir að benda á að til þess að svipta barn frelsi sínu þá þarf heimild í lögum. Við þurfum þá að skoða hvort hún sé fyrir hendi og hvort þá beiting þeirra heimilda sé í samræmi við lög.“

Hann segir það hlutverk stjórnvalda; yfirstjórnenda og eftirlitsaðila með grunnskólum að grípa til viðbragða sé þess þörf. „Ef það liggur fyrir að þessir yfirstjórnendur, sem eru þá fyrst og fremst sveitarfélögin sjálf og menntamálaráðuneytið, eru að grípa til viðeigandi aðgerða, þá segir það sig sjálft að umboðsmaður mun gefa þessum stjórnvöldum svigrúm til þess að vinna sína vinnu áður en lengra er haldið.“

Málinu verður fylgt eftir

Honum er ekki kunnugt um það á þessu stigi hvort gripið hafi verið til einhverra aðgerða hjá sveitarfélögunum sem um ræðir. En málinu geti lokið þannig að tilmælum sé beint til viðkomandi sveitarfélaga og eftir atvikum menntamálaráðuneytisins að grípa til viðeigandi aðgerða.

Skúli segir að gera megi ráð fyrir að vinnsla svona mála taki einhvern tíma og niðurstöðu sé því ekki að vænta á næstu dögum. „Ég bara vek athygli á því að umboðsmaður hefur ýmsa möguleika í því hvernig hann fylgir svona máli eftir. Hann getur mætt á vettvang, hann getur óskað eftir fundum og skýringum, bæði formlegum og óformlegum hætti og jafnvel óskað eftir skýrslutöku. Ég legg áherslu á að málinu verður fylgt eftir, en auðvitað með þeim fyrirvara að við sjáum að stjórnvöld séu sjálf að vinna í málinu. Þá fylgist umboðsmaður með því hvort þær úrbætur séu fullnægjandi áður en gripið er meira inn í atburðarásina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert