Jón Baldvin sýknaður

Jón Baldvin ásamt lögmanni sínum Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni í héraðsdómi.
Jón Baldvin ásamt lögmanni sínum Vilhjálmi H. Vilhjálmssyni í héraðsdómi. Árni Sæberg

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, var sýknaður í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur en hann var ákærður fyrir að hafa brotið kynferðislega á Carmen Jóhannsdóttur þegar hún var gestkomandi á heimili hans og eiginkonu hans í bænum Salobreña í An­dal­ús­íu á Spáni í júní 2018. Jón Baldvin hefur hafnað öllum ásökunum.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Jóns Baldvins, staðfestir niðurstöðuna í samtali við mbl.is.

Dröfn Kærnested, sækjandi í máli Carmenar, fór fram á það í málflutningi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að honum verði gert að sæta fangelsi í tvo til þrjá mánuði skilorðsbundið. Færði hún m.a. rök fyrir því með vísun í að Jón Baldvin hefði breytt framburði sínum í nokkrum atriðum og taldi hún hann ótrúverðugan. Framburður brotaþola hafi hins vegar verið trúverðugur.

Þá hafði skipaður réttargæslumaður Carmenar farið fram á að hann verði dæmdur til að greiða miskabætur upp á eina milljón króna, auk vaxta.

Dómurinn vel rökstuddur

Vilhjálmur verjandi Jón Baldvins segir dóminn mjög vel rökstuddan og að niðurstaða héraðsdóms hefði verið hárrétt lögfræðilega. „Það er ljóst að ásakanirnar áttu ekki við rök að styðjast.“ Hann vildi ekki tjá sig frekar um málið.

Jón Baldvin var ákærður fyrir brotið 7. september á síðasta ári. Var hann sakaður um að hafa strokið bakhluta Carmenar í matarboði á heimili þeirra á Spáni að loknum leik Íslands og Argentínu á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert