„Það varð bara allt brjálað allsstaðar“

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna.
Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna. Ljósmynd/Aðsend

Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, segir lögreglumenn hafa tekið ummæli lögmanns um að mismunun eftir þjóðfélagsstöðu ríki í rannsóknum lögreglu, mjög nærri sér. Voru margir þeirra afar ósáttir með að vegið hefði verið að starfsheiðri þeirra.

Landssamband lögreglumanna sendi í kjölfarið bréf á dómsmálaráðuneytið þann 4. nóvember þar sem óskað var eftir því að embætti ríkissaksóknara verði falin rannsókn á starfsháttum lögreglu í landinu við skýrslutökur af brotaþolum og gerendum.

Þorbjörg Inga Jónsdóttir, lögmaður sem hefur sinnt réttargæslu fyrir þolendur kynferðisofbeldi, hélt erindi á ráðstefnu um réttlæti á Hólum þar sem hún hélt því fram að kerfið færi í manngreinarálit eftir þjóðfélagsstöðu. Fréttablaðið birti frétt um það. Sagði Þorbjörg meðal annars að það skipti máli í málsmeðferð hvort að gerandi er hvítur karlmaður í jakkafötum eða einhver annar.

„Hún setti þessi ummæli fram og það varð bara allt brjálað allsstaðar. Lögreglumenn tóku þetta mjög nærri sér. [...] Ég sem formaður landssambandsins er náttúrulega bara að bregðast við því og ég tók þetta nærri mér líka,“ segir Fjölnir í samtali við mbl.is.

Mönnunarvandi sem hægir á rannsóknum

Í erindinu er málsmeðferðartími kynferðisbrota einnig gagnrýndur og tilgreint að meðaltími rannsókna alvarlegri glæpamála sé lengri en meðaltími rannsókna efnahagsbrota.

Að sögn Fjölnis er það fyrst og fremst mönnunarvandi sem kemur í veg fyrir að rannsókn mála gangi hratt og vel fyrir sig og gengur þá ekki hraðar að rannsaka efnahagsbrot en önnur brot.

„Ég hef starfað lengi við rannsókn efnahagsbrota og mér finnst hálf broslegt að hún segir að það gangi hratt að rannsaka þau. Þau ganga mjög hægt. Það vantar bara lögreglumenn og það eru allir sammála um það. Ef það ynnu fleiri lögreglumenn við rannsóknir almennt þá myndi örugglega allt ganga hraðar. Þetta er bara eins og á spítalanum og annarsstaðar, það vantar bara meira fólk.“

Meiðandi fyrir lögregluna

Spurður hvort það hafi komið eitthvað annað til greina en að fara fram á rannsókn, svarar Fjölnir því neitandi.

„Nei, við bara lítum þannig á að hún setur fram þessar ásakanir á hendur lögreglu og í rauninni á vissan hátt öllu ákæruvaldi. Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds í landinu samkvæmt lögum í öllum rannsóknum. Þetta eru það alvarlegar ásakanir og í raun meiðandi fyrir lögregluna að okkur finnst bara eðlilegt að við beinum því til dómsmálaráðherra.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur sagt að hún myndi mælast til að ríkislögreglustjóri tæki fyrir skoðun á þessu máli. Fjölnir telur þó skynsamlegra að því sé beint til ríkissaksóknara.

„Ríkislögreglustjóri er í raun ekki með neitt ákæruvald heldur er það héraðssaksóknari og ríkissaksóknari. Okkur finnst eðlilegt að ríkissaksóknari fari yfir og rannsaki þessar ávirðingar.“

Draga í efa hæfni Þorbjargar

Að sögn Fjölnis voru ummæli Þorbjargar sérstaklega meiðandi í ljósi þess að hún starfar sem lögmaður í eftirlitsnefnd lögreglu. Telur hann ekki við hæfi að hún starfi lengur innan nefndarinnar og biður hann dómsmálaráðherra að íhuga stöðu Þorbjargar.

„Við teljum að hún sé kannski ekki hæf lengur að starfa í nefnd um eftirlitsstörf lögreglu ef hún hefur þessar skoðanir á lögreglu og lýsir þeim yfir opinberlega. Svo við erum að beina því til ráðherra hvort hún ætti að endurskoða þessa nefnd og hverjir sitja í henni.“

Úr bréfinu sem sent var á dómsmálaráðuneytið:

„Þá er það mat Landssambands lögreglumanna að þau ár sem nefndin hefur verið að störfum hafi ýmsir hnökrar komið fram sem bera með sér að á skorti faglega breidd í störfum nefndarinnar. Þannig er ekki gert ráð fyrir að í nefndinni eigi sæti fulltrúi sem hefur til að bera sérþekkingu á starfsumhverfi lögreglu og starfsreynslu úr lögreglu eða hjá ákæruvaldi.

Væri æskilegt að endurskoða skipan nefndarinnar með það í huga að embætti ríkissaksóknara eða Landssamband lögreglumanna myndi tilnefna einn nefndarmann og annan til vara sem væru ekki í starfi hjá lögreglu eða ákæruvaldi en hefðu þó til að bera þá sérþekkingu og reynslu af störfum og starfsumhverfi lögreglu sem nauðsynlegt er að nefndarmaður í eftirlitsnefnd með störfum hennar hafi."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert