Tíu mánaða fangelsi fyrir tvær líkamsárásir gegn sambýliskonu

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ljósmynd/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í síðustu viku karlmann í 10 mánaða fangelsi fyrir tvær líkamsárásir gegn sambýliskonu sinni, brot gegn valdstjórninni og þjófnaðar- og umferðarlagabrot. Hann var einnig sviptur ökuréttindum sínum í fjögur ár og sex mánuði.

Karlmaðurinn var ákærður fyrir tvær líkamsárásir gegn sambýliskonu sinni sem áttu sér stað með skömmu millibili á síðasta ári. Sagði í ákæru að hann hefði veist að sambýliskonu sinni, brotaþola, á heimili þeirra, hrint henni, skellt henni í rúmið þar sem hann settist ofan á hana, rifið í hár hennar, kýlt hana ítrekað í andlitið með krepptum hnefa og tekið hana kverkataki.

Er lögreglu bar að vettvangi í fyrra skiptið var ákærði farinn af vettvangi. Brotaþoli var í bæði skipti með ásýnilega mikla áverka og flutt á slysadeild til skoðunar.

Ákærði neitaði sök og krafðist þess að vera sýknaður af háttseminni og hélt hann því fram að hann hefði ekki ráðist á brotaþola eins og lýst væri í ákæru heldur hefði hann verið að verjast árás hennar. Taldi ákærði að um gagnkvæmar ryskingar hefði verið að ræða milli ákærða og brotaþola og að framburður brotaþola um atvik hafi verið mjög á reiki.

Í dómi Héraðsdóms kemur hins vegar fram að ekki sé talið að takmörkuð frásögn brotaþola af atvikum í frumskýrslu eigi að leiða til þess að framburður hennar teljist vera á reiki.

Hótaði að „stúta“ brotaþola

Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa verið að verjast brotaþola. Hann viðurkenndi að hafa hrint brotaþola og lagt framhandlegg upp að háls hennar en að öðru leyti neitað háttseminni og sagði áverka brotaþola skýrast af BDSM-kynlífi.

Brotaþoli sagði fyrir dómi að ákærði hafi hrint henni, tekið hana kverkataki þar sem hún lá á rúminu og brotið hluti, ítrekað slegið hana í andlitið, sérstaklega vinstra megin og hefði vörin sprungið og hún misst heyrn á vinstra eyra, og rifið í hár hennar.

Einnig kom fram hjá henni að hún hefði verið með spangir á tönnunum. Þá hefði hann setið ofan á henni, hótað henni, sparkað í hana og hótað henni með þungum hlutum. Lýsti hún kverkatakinu svo að ákærði hefði tekið með báðum höndum utan um háls hennar og þrýst að þannig að hún átti erfitt með andardrátt.

Í skýrslu brotaþola kemur fram að meðan ákærði sat ofan á henni hafi hann hótað að „stúta“ henni ef hún segði frá ofbeldinu. Hann hafi einnig brotið ýmsa muni á heimilinu ásamt tveimur hurðum. Brotaþoli sagði þau hafa verið saman í þrjú ár og ákærði hefði beitt hana ofbeldi áður en hún í einu tilviki leitað á slysadeild.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms að framburður brotaþola sé trúverðugur og að niðurstaða málsins sé á honum byggður að því marki sem hann fær stuðning í öðrum gögnum.

Á að baki sakaferil

Ákærði á að baki nokkurn sakaferil á árunum 2003 til 2014. Á þessu tímabili var ákærði sex sinnum sakfelldur fyrir þjófnað ásamt því að vera ákærður fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og dæmdur í sex mánaða fangelsi. Þá var hann dæmdur í héraðsdómi árið 2014 í þriggja mánaða fangelsi vegna brots gegn valdstjórninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert