Alvarlegt slys sem varð á reiðhjólastíg

Slysið varð skammt frá gatnamótum Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar.
Slysið varð skammt frá gatnamótum Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umferðarslysið í morgun við gatnamót Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar er alvarlegt og er komið til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Slysið varð á reiðhjólastíg þar sem sá stígur og gangstígur mætast. Þar rákust saman rafmagnshlaupahjól og rafmagnsvespa eða létt bifhjól, að sögn Guðbrands Sigurðssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.

Ekki kemur fram í dagbók lögreglunnar um aðstæður á slysstað en Guðbrandur segir að bleyta og myrkur hafi verið þegar tilkynnt var um slysið klukkan 8.08 í morgun.

Tveir voru fluttir á slysadeild Landspítalans og hefur Guðbrandur ekki upplýsingar um líðan þeirra. 

Uppfært kl. 11.27:

Fram kemur í dagbók lögreglunnar að báðir aðilar séu mikið slasaðir. Einnig segir að málið sé í rannsókn og að ekki verða veittar frekari upplýsingar að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert