Ekki skýr vísbending um Heklugos

Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði, segir skjálftana virðast tengjast …
Magnús Tumi Guðmunds­son, pró­fess­or í jarðeðlis­fræði, segir skjálftana virðast tengjast flekahreyfingum á Suðurlandi. Ekki sé nærtækt að tengja slíkt við Heklugos. Ljósmynd/Almannavarnir

„Það er engin ástæða til að tengja þetta við Heklugos,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur um jarðskjálfta sem mældist í nágrenni við Heklu um hálftvöleytið í dag.

Var skjálftinn af stærðinni 5,2 og átti upptök við Vatnafjöll, um 7,5 kílómetra suður af Heklu.

„Við fyrstu sýn, þá er miklu frekar hægt að tengja þetta við hreyfingarnar á Suðurlandsbrotabeltinu, þar sem verða stærstu skjálftar á Íslandi, þar sem plöturnar eru að færast á móti hvor annarri og það verður núningur á milli,“ segir Magnús en við núninginn verða skjálftar.

Vatnafjallaskjálftinn árið 1987 mældist á svipuðum stað en hann var …
Vatnafjallaskjálftinn árið 1987 mældist á svipuðum stað en hann var 5,9 að stærð. Þá var um flekahreyfingar að ræða en ekkert gos fylgdi í kjölfarið. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Sjáum hvernig þetta þróast“

Vatnafjallaskjálftinn árið 1987 var síðasti skjálftinn á þessu svæði og mældist hann 5,9 að stærð. „Töluvert stærri en ekki á ósvipuðum stað. Svo eru þessir eftirskjálftar sem fylgja. Þeir eru dæmigerðir, eftir að brotaflöturinn hefur hrokkið er umhverfið að jafna sig,“ segir Magnús. 

Fjórum árum síðar gaus Hekla, árið 1991, og síðan tíu árum síðar, árið 2000, en síðan þá hefur hún ekki gosið. 

Þetta er sem sagt engin sérstök vísbending um að Hekla muni gjósa í bráð?

„Við sjáum bara hvernig þetta þróast. Þetta er á þessu austasta brotabelti, þarna verða stærstu sprungurnar. Það er ekki nærtækt að tengja þetta við að nú sé Hekla að fara að gjósa,“ segir Magnús að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert