Myndskeið af Breiðamerkurjökli vekur athygli

Breiðamerkurjökull í Vatnajökulsþjóðgarði.
Breiðamerkurjökull í Vatnajökulsþjóðgarði. mbl.is/RAX

Myndskeið sem sýnir hraða bráðnun Breiðamerkurjökuls í sumar hefur vakið mikla athygli og er það talið fanga þau eyðileggjandi áhrif sem hlýnun jarðar hefur á náttúruna og lífríkið.

Fréttamiðillinn Sky News birti myndskeiðið.

Teymi kvikmyndatökumanna, jöklafræðinga og vísindamiðlara stóð að baki myndskeiðsins en myndavélar voru settar upp við rætur jökulsins yfir tæplega sex vikna tímabil í sumar, eða milli júlí og september. Var þetta meðal annars gert í samstarfi við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Hornafirði.

Ætti að vekja fólk til umhugsunar

Dr. Kieran Baxter, forsprakki verkefnisins, sagði að myndefnið ætti að vekja fólk til umhugsunar og að við gætum ekki lengur hunsað merkin um áhrif loftslagsbreytinga.

„Loftslagsbreytingar eru nú þegar að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir heiminn og við verðum að taka ábyrgð á því,“ sagði Baxter og bætti við: „Leiðirnar sem við kjósum nú, þar með talið ákvarðanir gerðar á COP26, munu hafa mikil áhrif á loftslagið sem við munum þurfa að glíma við í framtíðinni. Magnið af bráðnun sem við sjáum á Íslandi er bara ein vísbending um skalann af þeim áhrifum.“

Hröð bráðnun jökla yfir sumartímann sé farið að valda vísindamönnum miklum áhyggjum en jafnvægi milli sumar- og vetrartímans sé nú komið úr skorðum og jöklarnir nái ekki að endurheimta þann ís sem þeir misstu yfir veturinn. Íslenskir jöklar hopi því með hverju árinu sem líður. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert