„Alveg ljóst að það þurfi að taka verulega hart í“

Már Kristjánsson, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar spít­al­ans.
Már Kristjánsson, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar spít­al­ans. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Herða þarf sóttvarnaraðgerðir verulega til að ná nýgengi kórónuveirusmita í samfélaginu niður. Fjölgun smita undanfarna daga er mikið áhyggjuefni og útlit fyrir að helgin verði erfið fyrir starfsfólk Landspítalans. Þetta segir Már Kristjáns­son, yf­ir­lækn­ir smit­sjúk­dóma­deild­ar spít­al­ans, í samtali við mbl.is.

„Frá mínum bæjardyrum séð, sem talsmanni fyrir þessari þjónustu sem við erum í forsvari fyrir, þá er það alveg ljóst að það þurfi að taka verulega hart í og að við þurfum að koma nýgenginu úr þessum tæplega 500 eitthvað langt niður fyrir 100.“

Grímuskylda og bólusetningar gefið góða raun

Þá telur hann að hér á landi eigi fólk að temja sér að vera áfram með grímur á almannafæri og að gerð verði krafa um að þeir sem hyggist sækja menningarviðburði, veitingahús eða annað slíkt séu bólusettir, enda virðist það hafa gefið góða raun erlendis.

„Ef rýnt er í tölur yfir dauðsföll af völdum kórónuveirunnar til dæmis í Frakklandi, á Spáni og á Ítalíu, þar sem venja er að vera með grímu á almannafæri, að undangengnu hraðprófi eða framvísun gilds bólusettningarvottorðs, þá virðist þessum þjóðum ganga vel.“

Kröfur um slíkt séu ekki mjög íþyngjandi og jafnvel hvetjandi til þess að fólk láti bólusetja sig, svo það geti farið sem víðast um í samfélaginu, að sögn Más.

„Ég að það sé mjög skynsamleg ráðstöfun, það færi þá saman bæði lýðheilsufræðileg aðgerð annars vegar, með sem minnstri íhlutun í frelsi borgaranna.“

Útlit sé fyrir að helgin verði erfið á spítalanum

Í ljósi fjölda greindra kórónuveirusmita síðastliðin sólarhring er útlit fyrir að helgin verði erfið á Landspítalanum, segir hann inntur eftir því.

„Hún verður bara erfið. Starfsmönnum fækkar alltaf um helgar og heilbrigðisstarfsmenn vilja vera í fríi, þannig þetta er bara mjög mikil áskorun að halda úti allri þessari starfsemi.“

Þá segist hann vongóður um að fólk mæti í örvunarbólusetningu þegar að því kemur.

„Ég held það breyti svo miklu bara fyrir okkur sem samfélag. Ef að líkum lætur þá mun þetta vernda samfélagið okkar og ef að vel tekst til munum við ekki sjá svona háarnýgengistölur og vonandi aldrei aftur. Ef það gerist, að við náum nýgenginu niður og getum viðhaldið því þannig þá getum við farið að sinna okkar venjulegu störfum, sem er að sinna þeim sem eru bráðveikir og langveikir.“

mbl.is