Bannað að tala um Sólveigu og Viðar á fundinum

Sólveigu og Viðari verður boðið á fund trúnaðarráðsins eftir viku, …
Sólveigu og Viðari verður boðið á fund trúnaðarráðsins eftir viku, samkvæmt heimildum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á fundi trúnaðarráðs Eflingar, sem fór fram í gær, var ekki heimilt að ræða um Sólveigu Önnu Jónsdóttur, fyrrverandi formann félagsins, eða Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra.

Var sú ákvörðun tekin í ljósi þess að þau voru ekki viðstödd á fundinum. Þetta herma heimildir mbl.is.

Sömu heimildir herma að Sólveig hafi ítrekað óskað eftir því að fá að koma á fund trúnaðarráðsins í gær, en þegar hún fékk loks svar við fyrirspurn sinni, hætti hún við. Mun hún vilja skýra sína hlið í þeim átökum sem hafa átt sér stað á milli hennar og starfsfólks Eflingar.

Sökuð um að halda „aftökulista“

Sólveig segir starfsfólkið hafa hrakið sig úr formannsstólnum og aldrei gefið sér vinnufrið. Samkvæmt ályktun sem trúnaðarmenn Eflingar afhentu stjórnendum í júní síðastliðnum hefur starfsfólkið upplifað vanlíðan og óöryggi á vinnustaðnum.

Var Sólveig meðal annars sökuð um að halda „aftökulista“ og að fremja alvarleg kjarasamningsbrot á borð fyrir fyrirvaralausar uppsagnir. Á starfsmannafundi í lok október vildi enginn bera þær ásaknir til baka og ákvað Sólveig í kjölfarið að segja af sér sem formaður.

Það var hins vegar ákveðið á fundinum í gær að bjóða bæði Sólveigu og Viðari að koma á fund trúnaðarráðsins eftir viku, en þá verður um að ræða aukafund, þar sem ráðið fundar venjulega einu sinni í mánuði. Næsti fundur er skráður á heimasíðu Eflingar þann 9. desember næstkomandi.

Í trúnaðarráðinu sitja um 130 manns, þar á meðal meðlimir í stjórn Eflingar.

Sex mánaða starfslokasamningar

Í gær var einnig fundur í stjórn Eflingar, sá fyrsti eftir að ný forysta tók við. Samkvæmt heimildum átti meðal annars að skrifa undir starfslokasamninga Sólveigar og Viðars á fundinum, en ákveðið var að fresta því til næsta fundar. Heimildirnar herma að hvort um sig fái starfslokasamning upp á sex mánuði á fullum launum, en þar sem Viðar sagði upp 1. nóvember verða það í raun mánuðir í hans tilfelli.

Sólveig mun vera með rúmlega 900 þúsund krónur í laun og Viðar rúma milljón, samkvæmt heimildum. Það þýðir þá að Efling mun greiða fyrrverandi formanni og framkvæmdastjóra samtals um 13 milljónir króna í laun á uppsagnarfrestinum. Þá þarf að sjálfsögðu að greiða nýjum formanni laun, en ekki hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri í stað Viðars.

Hvorki náðist í Sólveigu né Viðar við vinnslu fréttarinnar.

Næst ekki í nýjan formann

Ekki hefur heldur náðst í nýjan formann Eflingar, Agnieszku Ziólowska, eða Ólöfu Helgu Adolfsdóttur, nýjan varaformann, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ekki hefur því verið hægt að spyrja hvort tekist hafi að lægja öldurnar innan félagsins.

Guðmundur Baldursson, stjórnarmaður í Eflingu, sagði í samtali við mbl.is í gær að félagar í Eflingar ættu rétt á því að heyra frá forystunni eftir öll átökin.

„Það eru 26 eða 27 þúsund fé­lag­ar í þessu fé­lagi og þeir fá eng­ar frétt­ir. Það hlýt­ur að vera krafa hvers fé­lags­manns, eft­ir öll þessi djöf­uls­ins læti, að fá að vita hvað er verið að gera þarna. Hvaða úrræði á að nota til að lægja öld­urn­ar þarna inni á skrif­stof­unni og hvernig á að taka á þess­ari óánægju og van­líðan sem fólk var að upp­lifa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert