Ók rafskútu á 75 km/klst. úti á götu

Myndband náðist af ökumanni rafskútu aka á um 75 km/klst. á Hafnarfjarðarvegi í átt að Arnarneshæð í dag. 

Ökumaður bílsins sem ók fyrir aftan sendi myndskeiðið á mbl.is sem sjá má hér að ofan. Það skal tekið fram að í umferðarlögum er skýrt kveðið á um að notkun snjalltækja undir stýri sé bönnuð.

Rafskútum af því tagi sem sjá má í myndbandinu má aðeins aka á göngu- og hjólastígum og eigi hraðar en 25 km/klst. Ökumaðurinn ekur því 50 km/klst. yfir hámarkshraða. 

Þetta segir Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, að sé stórhættulegt. Hún bendir á að samkvæmt umferðarlögum sé það skýrt að rafhlaupahjólum skuli ekki ekið hraðar en 25 km/klst. og ekki úti á akbraut, nema þegar verið er að þvera götur göngu- eða hjólastíga á milli. 

„Það er að sjálfsögðu ekki heimilt að nota þessi hjól úti á götu og þau mega ekki fara hraðar en 25 kílómetra á klukkustund. Og þau eiga í sjálfu sér ekki að geta farið hraðar, en við höfum heyrt af því og það vita það nú bara margir, að stundum er mögulegt að láta þau fara hraðar með því að fikta eitthvað í þeim,“ segir Þórhildur og vísar til þess þegar eigendur rafhlaupahjóla rjúfa innsigli þeirra, eins og það kallast. 

Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu.
Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu. Eggert Jóhannesson

Reglur um rafhlaupahjól skýrar

Það er enda það sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu spurði sig hvort hafi mögulega gerst í vikunni, þegar ökumaður rafhlaupahjóls lést eftir árekstur við ökumann á vespu, sem slasaðist alvarlega. Lögregla sagði þannig að það væri til skoðunar hvort innsigli rafhlaupahjólsins eða vespunnar hefðu verið rofin. Um var að ræða fyrsta banaslysið hér á landi þar sem rafskúta kemur við sögu.

Þórhildur bendir á að skýrt regluverk gildi um notkun rafhlaupahjóla á Íslandi, sem ágætt er að glöggva sig á. Rafhlaupahjól séu sniðug tæki og til margs brúkanleg, en þeim skuli ekið varlega og reglum samkvæmt til þess að skapa sem minnsta hættu fyrir vegfarendur. Í því skyni bendir hún á fræðsluefni á vef Samgöngustofu þar sem finna má ýmsan fróðleik um notkun rafhlaupahjóla. 

mbl.is