Undanþágurnar halda áfram gildi sínu

mbl.is/Arnþór

Heilbrigðisráðherra veitti síðastliðið vor undanþágur frá reglum um sóttvarnaaðgerðir fyrir þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki svo unnt væri að halda starfsemi þeirra órofinni. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að áður veittar undanþágur haldi gildi sínu þannig að hertar sóttvarnaráðstafanir raski ekki umræddri starfsemi.

Sömu skilyrði fyrir undanþágum gilda og áður, en þær voru veittar að undangengnu samráði við sóttvarnalækni, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og Matvælastofnun, að því er segir í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu. 

Þá segir, að ákvörðun um þessar undanþágur byggist á því að um sé að ræða samfélagslega ómissandi innviði sem mega ekki stöðvast vegna lífsbjargandi starfsemi, svo sem raforku, fjarskipta, samgangna, heilbrigðisstarfsemi, löggæslu, sjúkraflutninga og slökkviliða.

Einnig falli hér undir starfsemi fyrirtækja sem teljist kerfislega og efnahagslega mikilvæg, svo sem til að tryggja innviði, sorphirðu, aðföng, mætvælaframleiðslu, flutninga matvæla, lyfja og annarra nauðsynjavara eða efnahagslegt öryggi ríkisins með útflutningi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert