Yfir 320 skjálftar síðasta sólarhringinn

Hekla.
Hekla. mbl.is/Sigurður Bogi

Rúmlega 320 jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu við Vatnafjöll í nágrenni Heklu síðasta sólarhringinn, þar af rúmlega 150 frá klukkan 18 í gærkvöldi. Stærsti skjálftinn varð í gær upp á 5,2 en síðan þá hefur stærsti skjálftinn á svæðinu mælst 2,7, rétt fyrir klukkan sex í morgun.

Annar svipaður skjálfti, af stærðinni 2,6, mældist rétt fyrir klukkan tvö í nótt, að sögn Böðvars Sveinssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Hann segir skjálftavirknina á svæðinu því halda áfram og að grannt sé fylgst með gangi mála.

Ef eitthvað meira gerist verður vísindaráð væntanlega kallað saman en það fundaði síðast í gær. Enginn fundur er annars fyrirhugaður í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert