Fundu lifandi kind grafna í fönn

Kindin leit upp á Þorkel, bjargvætt sinn.
Kindin leit upp á Þorkel, bjargvætt sinn. Mynd/Þorkell Guðjónsson

Þorkell Guðjónsson rjúpnaveiðimaður og félagi hans ætluðu ekki að trúa sínum eigin augun þegar þeir fundu lifandi kind grafna í fönn á dögunum, þar sem þeir voru að leita að rjúpu. Það var reyndar hundurinn Garpur sem fann kindina en Þorkell og félagi hans komu henni til bjargar.

„Við vorum á Rjúpnaveiðum í Garpsdal í Gilsfirði með hundinn Garp og komum að gildragi sem hafði skafið yfir. Það var pínulítið gat þarna en það er oft lækur undir svona, nema hundurinn, sem finnur oft rjúpur fyrir mig, fer þangað. Mér datt helst í hug að það væri refur þarna en þegar ég kíkti niður þá sá ég eitthvað hreyfast. Þetta var eins og slanga og ég hugsaði með mér hvaða furðuskepna þetta væri, eins og í ævintýri, en þá voru það hornin á kindinni. Svo horfði hún bara upp til mín,“ segir Þorkell hlæjandi þegar hann rifjar þetta upp. Honum var létt þegar í ljós kom að um hyrnda kind var ræða en ekki iðandi slöngu.

Í fyrstu fannst Þorkeli hann vera að horfa á iðandi …
Í fyrstu fannst Þorkeli hann vera að horfa á iðandi slöngu. Mynd/Þorkell Guðjónsson

Hann getur ekki ímyndað sér hve lengi kindin hafði verið þarna, en telur líklegt að hún hafi leitað skjóls, svo hafi skafið yfir hana og orðið föst.  „Svo hefur hún líklega notað hornin til að búa til gat svo hún gæti andað. Hún hefur örugglega verið þarna í marga daga.“

Þorkell og félagi hans náðu að brjóta snjóinn fyrir framan kindina og toguðu í hornin á henni. Svo labbaði hún sjálf úr skaflinum.

Virðist alveg vera búin að jafna sig

Hann segir kindina hafa verið þokkalega spræka þegar hún kom upp úr snjónum, en hún labbaði aðeins í burtu frá þeim félögum áður en hún lagðist niður til að hvíla sig.

Í kjölfarið hringdi Þorkell í bóndann sem á jörðina en þá kom í ljós að um var að ræða kind af næsta bæ. Hann ætlaði þó ekki að trúa því að kindin væri lifandi. Gerði einfaldlega ráð fyrir því að hún væri dáin. Bóndinn í Garpsdal kom og sótti kindina, en eigendur hennar náðu í hana til hans í dag. „Ég talaði við þau í dag og hún var alveg búin að jafna sig.“

Þorkell segir að annað hvort hafi kindin orðið eftir við smölun í haust eða að hún hafi einfaldlega sloppið úr girðingu því kindurnar séu stundum úti núna. Þeir hafi ekki verið komnir það langt upp í fjall þegar þeir fundu hana.

„Við hefðum aldrei kíkt ofan í þetta gat nema út af hundinum því það er ekkert óvenjulegt að sjá svona. Þannig rjúpnaveiðitúrinn var eiginlega orðinn að ævintýri þrátt fyrir að við hefðum ekki veitt neina rjúpu, segir Þorkell,“ en bætir við að þeir hafi þó fengið þær nokkrar. Honum fannst þetta að minnsta kosti mjög skemmtileg upplifun og ánægjulegt að bjarga kind.

mbl.is

Bloggað um fréttina