Með barn á rafskútu úti á götu á 70 km hraða

Hér sést að ökumaður rafskútunnar er með barn fyrir framan …
Hér sést að ökumaður rafskútunnar er með barn fyrir framan sig. Ljósmynd/Skjáskot

Myndband náðist af ökumanni rafskútu aka á um 70 kílómetra hraða á klukkustund með barn fyrir framan sig á Reykjanesbrautinni nýlega. Það var ökumaður með myndavél í mælaborðinu hjá sér sem náði myndbandinu, en á því sést að ökumaður bílsins tekur fram úr rafskútunni á um 75 kílómetra hraða á klukkustund.

Ef myndbandið er skoðað sést að fyrir framan ökumann rafskútunnar er barn í stígvélum. Enginn gangstígur er meðfram götunni á þessum stað, en hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund.

Í gær birti mbl.is frétt af ökumanni rafskútu sem ók á Hafnarfjarðarveginum á um 75 kílómetra hraða á klukkustund, svo ekki er um einsdæmi að ræða.

Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is svona athæfi „glórulaust“.

„Það er alveg á hreinu að rafskútur mega ekki aka hraðar en á 25 kílómetra hraða og eiga að vera á gangstígum. Lagaramminn er skýr með það. Þetta er stórhættulegt athæfi.“

Árni hafði ekki séð myndbandið sem um ræðir en blaðamaður lýsti fyrir honum hvað fyrir augu bar.

„Við megum ekki gleyma því að þeir sem eru á þessum hjólum þeir eru alveg óvarðir. Þetta eru svokallaðir óvarðir vegfarendur. Dæmin hafa sýnt að ef fólk dettur á þessu þá getur það slasast mjög alvarlega, segir Árni,“ en skemmst er að minnast þess að banaslys varð í vikunni þegar rafskúta og létt bifhjól rákust saman á gangstíg norðan gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar. Ökumaður rafskútunnar lést og ökumaður bifhjólsins slasaðist alvarlega.

Þá segir Árni líka ólöglegt að vera með barn fyrir framan sig á rafskútu. „Miðað við það sem þú ert að lýsa þá er þetta allt kolólöglegt og hegðun sem er óviðunandi.“

Gríðarleg aukning á alvarlegum slysum

Hann segir að í flestum ef ekki öllum tilfellum séu rafskútur aðeins gerðar fyrir eina manneskju. „En við höfum séð unga krakka tví- og þrímenna á þessum hjólum. Þá höfum við rætt við þá og foreldra og reynt að útskýra reglurnar,“ segir Árni og bendir á að inni á vef Samgöngustofu séu mjög góðar leiðbeiningar um notkun á slíkum hjólum.

„Því miður þá er því ábótavant að fólk fari eftir þessum reglum og við sjáum gríðarlega aukningu á alvarlegum slysum á þessu ári einmitt út af rafhlaupahjólum.“

Spurður út í það hvort standi til að fara jafnvel í eitthvert átak til að reyna að sporna við fjölgun slysa segir hann það alveg til skoðunar.

Í síðustu viku fundaði fulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með Samgöngustofu í hópi sem heitir fagráð um umferðarmál. „Þar komu fram miklar áhyggjur af tíðinni fram undan. Við erum að fara inn í vetrartíð og ef þetta heldur fram sem horfir verða slysatölur algjörlega óviðunandi með þetta. Þetta er í skoðun bæði hjá okkur og Samgöngustofu og öllum sem er annt um umferðaröryggi. Menn hafa miklar áhyggjur af þessum málaflokki. Tölurnar sem við sjáum í fjölda alvarlegra slasaðra eru óhugnanlegar.“

Árni segir ökumenn rafskúta hiklaust kærða fyrir svona athæfi. „Við fordæmum svona hegðun og ef lögreglumenn verða varir við svona þá ræða menn við viðkomandi og kæra. Við lýsum eftir því að fólk sýni ábyrga hegðun í kringum þessi tæki.“

mbl.is