Krefjast þess að leikskólanum Sælukoti verði lokað

Í ákallinu segir að ekki sé talið að rekstur leikskólans …
Í ákallinu segir að ekki sé talið að rekstur leikskólans standist lög. mbl.is/​Hari

Fyrrverandi starfsfólk leikskólans Sælukots í Reykjavík krefst þess að leikskólanum verði tafarlaust lokað eða að gerðar verði róttækar breytingar á starfsháttum hans.

Þetta kemur fram í ákalli frá starfsfólkinu sem ber yfirskriftina „Neyðarkall vegna Sælukots“.

Börnin séu í hættu á hverjum degi

Þar segir að ekki sé talið að rekstur leikskólans standist lög og eins og sakir standa líti starfsfólkið svo á að börnin á leikskólanum séu þar í hættu á hverjum degi.

Í ákallinu rekur starfsfólkið langan lista af þeim alvarlegu hlutum sem sagðir eru viðgangast á leikskólanum. Fjöldi foreldra sem hafa verið með börn sín í skólanum lýsir einnig sinni upplifun af starfseminni.

Fram kemur að hlutfall barna á hvern starfsmann sé of hátt, starfsmenn séu oft einir með stóran hóp ungra barna klukkustundum saman eða jafnvel heilu dagana. Þá komi einnig fyrir að ung börn séu skilin eftir eftirlitslaus þegar starfsmaður þurfi að skipta á barni í öðru rými en þar sem börnin dvelja.

Allt of lítið rými sé fyrir börnin til að athafna sig og slysatíðni barnanna há vegna vangetu starfsmanna til að sinna þeim sökum manneklu. Matur, bæði fyrir börn og starfsfólk, sé sömuleiðis af skornum skammti.

Starfsmaður einn með börnum þrátt fyrir ásakanir um kynferðisofbeldi

Fram kemur að einn starfsmaður skólans hafi verið sakaður um kynferðisbrot gegn einu barnanna en þrátt fyrir ásakanir oft látinn vera einn með börnum. Aðrir aðilar hafi ekki verið upplýstir um málið fyrr en það birtist í fjölmiðlum.

Leikskólinn er auglýstur sem „landsins fyrsti grænmetis- og veganleikskólinn“ en í ákallinu kemur fram að börnunum séu gefnar mjólkurafurðir, einnig þeim börnum sem vitað er að fái ofnæmisviðbrögð.

Meðal annarra atriða sem starfsfólkið vekur athygli á er að hreinlæti sé ábótavant, brotið sé á rétti starfsmanna til hvíldar, brotið sé á kjarasamningum starfsmanna, starfsfólk fái engar leiðbeiningar um kennslu sem er þó á þeirra ábyrgð, illa undirbúnir starfsmenn séu ráðnir til starfa og að öryggi á tímum Covid-19 sé ekki í fyrirrúmi.

Fundur með Reykjavíkurborg engan árangur borið

Starfsfólkið hafi kvartað beint við rekstraraðila leikskólans frá árinu 2014, það hafi engan árangur borið og þá verið leitað til Reykjavíkurborgar. Var þá fundað með fulltrúum skóla- og frístundasviðs borgarinnar í maí árið 2016. Fyrrverandi leikskólastjóri hafi þar lýst þungum áhyggjum af börnum og starfsfólki leikskólans en fengið lítil sem engin störf.

Árið 2016 þegar ofangreindar athugasemdir höfðu borist Reykjavíkurborg hafði leikskólinn leyfi til að vista 47 börn. Árið 2020 var talan komin upp í 72 börn sem er því ríflega 85 prósenta fjölgun á fimm ára tímabili.

Því segist fyrrverandi starfsfólk velta fyrir sér hvað þurfi til að gripið verði inn í starf leikskólans og hvar eftirlit og eftirfylgni með starfi leikskóla sé.

Flestir starfsmenn útlendingar og þekkja ekki rétt sinn

Leikskólinn er rekinn af samtökum sem kallast Ananda Marga og kenna sig einkum við húmanisma. Fulltrúi samtakanna og rekstraraðili skólans er Kumari Kundan Singh, kölluð Didi.

Í ákallinu kemur fram að hún sé af indverskum uppruna og tali ekki íslensku, þrátt fyrir langa búsetu á Íslandi, sem sagt er geta átt þátt sinn í því að skólinn sé ekki rekinn samkvæmt íslenskri skólastefnu og aðalnámskrá leikskóla.

„Stjórnunarhættir byggjast á flestu öðru en húmanisma og gífurleg starfsmannavelta er til marks um það. Starfsmenn skólans eru margir útlendingar sem tala litla sem enga íslensku, þekkja ekki sinn rétt á Íslandi og geta því ekki brugðist við því óréttlæti sem þeir eru beittir.“

Fyrir neðan má sjá hluta úr ákallinu:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert