Borgin skoðar málefni Sælukots

Ljósmynd/Colourbox

Reykjavíkurborg hefur gert ytra mat á starfsemi leikskólans Sælukoti og er fyrirhugað að funda um matsniðurstöðuna með leikskólastjóra og forsvarsmönnum leikskólans von bráðar. Þetta segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, í samtali við mbl.is.

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að vita ef fólki finnst starfið í leikskólum borgarinnar ekki nægilega vandað. Þá getum við bæði sinnt okkar eftirlitsskyldu og húsbóndaskyldu þegar kemur að leikskólum sem eru reknir á ábyrgð Reykjavíkurborgar.”

Gerðu athugasemdir við starfsmannahlutfall

Sælukot sé þó sjálfstætt starfandi leikskóli og því sé það hlutverk rekstraraðila og leikskólastjóra hans að grípa til viðeigandi aðgerða þegar upp komi einstaka mál eða athugasemdir gagnvart starfseminni. Það sé svo hlutverk Reykjavíkurborgar að tryggja að viðeigandi úrbætur séu gerðar, að sögn Helga.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.

„Við förum með lögbundið eftirlit með starfsemi skólans og komi fram vísbendingar um að leikskólinn fari ekki að lögum og sinni ekki lögbundnum skyldum sínum þá ber okkur skylda að ganga úr skugga um að svo sé og að viðeigandi úrbætur séu gerðar sé þess þörf.“

Inntur eftir því segir hann borginni hafa borist kvörtun frá starfsmanni leikskólans árið 2016. Í kjölfarið hafi heildstæð úttekt verið gerð á starfsemi leikskólans árið 2017 og skýrslu skilað til rekstraraðila með tillögum um úrbætur. Í sumar hafi borginni svo aftur borist kvörtun frá öðrum starfsmanni. Það mál sé þó enn í vinnslu.

Meðal þess sem fyrrverandi starfsmenn leikskólans gerðu athugasemdir við í ákalli sínu er að hlutfall barna á hvern starfsmann á leikskólanum sé of hátt, að of lítið rými sé fyrir börnin til að athafna sig og að slysatíðni barnanna sé há vegna van­getu starfs­manna til að sinna þeim sök­um mann­eklu. Spurður segir Helgi borgina hafa gert athugasemd við starfsmannahlutfall á leikskólanum í skýrslu til rekstraraðila árið 2017 og fylgt því svo eftir.

Leikskólastjórar skuli hafa viðeigandi menntun

Þá hafi fyrrverandi starfsfólk leikskólans og foreldrar barnanna þar einnig gert athugasemd við það að Kumari Kund­an Singh, sem er í forsvari fyrir skólann, sé ekki menntaður leikskólakennari. Samkvæmt Helga gerði borgin einnig athugasemd við það í skýrslu sinni til rekstraraðila árið 2017.

„Þótt það sé hörgull á leikskólakennurum á Íslandi þá getur enginn leikskóli starfað samkvæmt lögum nema leikskólastjórinn sé með tilskilda menntun sem leikskólakennari. Kumari er ekki leikskólakennari. Engu að síður er annar starfsmaður í stöðuhlutfalli sem leikskólastjóri á Sælukoti, sem er með tilskilin réttindi. Það er ein af þeim athugasemdum sem við gerðum á sínum tíma, að það yrði að vera alveg skýrt að sá aðili sem við værum í samskiptum við væri leikskólastjóri. Það var brugðist við þeim athugasemdum með þeim hætti að við álitum svo að þessari sérstakri skoðun okkar væri þá lokið. Eftir sem áður fylgjumst við með því að samningar séu uppfylltir með heimsóknum í leikskólann.“

Mikið hafi þó mætt á leikskólastjórnendum undanfarin misseri, sér í lagi vegna álags í kórónuveirufaraldrinum og vegna þess hve erfitt hefur gengið að fá fólk til starfa, að sögn Helga.

„Við hjá borginni erum búin að gera mikið til þess að efla og bæta starfsumhverfi leikskólanna, t.d. með því að fækka börnum á hvern starfsmann, auka undirbúningstíma í leikskólanum og bæta aðbúnað verulega. Þannig jafnt og þétt erum við að vinna að því að koma til móts við þarfir okkar starfsfólks.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert