„Eins og að falla ofan af tíu hæða húsi“

Töluvert er um að átt sé við rafskútur þannig að hægt sé að aka þeim mun hraðar en 25 kílómetra á klukkustund, sem er leyfilegur hámarkshraði tækjanna. Ekki liggja þó fyrir neinar tölur eða rannsóknir á því hve algengt þetta er, en Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir það tilfinninguna að svo sé. 

„Ég myndi ætla að það væri nokkuð algengt. Það er tilfinningin, en það eru engar mælingar á bakvið það," segir hann í samtali við mbl.is.

Fólk algjörlega óvarið á rafskútum

Í síðustu viku birti mbl.is tvær fréttir um að rafskútum væri ekið á um 75 kílómetra hraða annars vegar og um 70 kílómetra hraða hinsvegar. Í fyrra tilfellinu var viðkomandi á Hafnarfjarðarveginum og í því síðara á Reykjanesbrautinni, en sá einstaklingur var með barn fyrir framan sig á rafskútunni.

Oddur telur ansi algengt að átt sé við rafskútur til …
Oddur telur ansi algengt að átt sé við rafskútur til að auka hraða þeirra. mbl.is/Sigurður Bogi

Þá varð í síðustu viku fyrsta banaslysið hér á landi þar sem rafskúta kemur við sögu. Þar rákust rafskúta og létt bifhjól saman á göngustíg norðan við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar. Ökumaður rafskútunnar lést. Meðal þess sem er til rannsóknar í tengslum við slysið er hvort átt hafi verið við tækin til að auka hraða þeirra, en báðir ökumenn voru með hjálm.

Þá hefur mbl.is enn eitt myndbandið undir höndum, sem sjá má með þessari frétt, en það sýnir ökumann á rafskútu á Grensásveginum á töluverðum hraða, en viðkomandi virðir ekki umferðarreglur og keyrir yfir á rauðu ljósi.

Oddur bendir á að fólk sé algjörlega óvarið á rafskútum og því sé mjög alvarlegt að þeim sé ekið á svo miklum hraða og raun ber vitni. Það þurfi ekki að spyrja að leikslokum ef eitthvað bregður út af. „Þetta er bara eins og að falla ofan af tíu hæða húsi, þegar þú ert kominn á um 70 kílómetra hraða, eins og þessi á Reykjanesbrautinni.“

Geta sannreynt hraðann með einföldu tæki

Almennt þarf að taka tækin í sundur til að kanna hvort innsigli hafi verið rofin í þeim tilgangi að auka hraðann en lögreglan á Suðurlandi á sérstakan búnað sem mælir hvað tækin komast hratt á frekar einfaldan hátt.

„Þetta er búnaður sem hugsaður er til að geta sannreynt hversu hratt er hægt að aka þessum tækjum og þá erum við að velta fyrir okkur hvort tækið komist upp fyrir 25 kílómetra og er þá orðið skráningarskylt ökutæki, eða hvort það falli undir reiðhjól,“ segir Oddur.

Með tækinu er því hægt að sjá hvort átt hafi verið við ökutækin til að auka hraða þeirra, en annars þyrfti að taka þau í sundur til að kanna hvort innsigli hafi verið rofið.

Um er að ræða einhvers konar kefli sem ökutækinu er keyrt á, ekkert ósvipað og notað er við hemlaprófun á bílum í skoðunarstöð. „Þetta er sami mekanismi,“ segir Oddur. Búnaðurinn kemst fyrir í tösku og er því færanlegur og auðveldur í notkun.

Lögreglan á Suðurlandi er eina lögregluembættið hér á landi sem á svona búnað eins og er. „Við tókum ákvörðun um að kaupa þetta hérna. Við erum einnig með þetta því hjá okkur er rannsóknarsetur vegna alvarlegra umferðarslysa fyrir landið allt. Þannig við vildum vera undir það búin að geta tekið þessi ökutæki; rafskúturnar, léttu bifhjólin og rafmagnsskellinöðrurnar ef þau eru að lenda í slysum, til að geta svarað því hversu hratt er hægt að aka þeim, að því gefnu að þau séu ekki það skemmd að það sé hægt að gera þessa mælingu.”

Hvetja fólk til að hringja í 112

Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir gríðarlega aukningu á alvarlegum slysum á rafskútum á þessu ári. Hann hvetur fólk til að hringja strax í Neyðarlínuna, 112, ef það verður vart við óábyrga hegðun á rafskútum. Þannig sé hægt að bregðast við strax. „Við erum með tæki, bæði bíla og bifhjól víða um borg og reynum þá að komast að þessu.“

Þá notar lögreglan ratsjá til mælinga og því sést fljótt ef verið er að aka þessum tækjum of hratt.

„Þessi myndbönd sem við höfum verið að sjá, við fordæmum svona hegðun í umferðinni og viljum fá að vita af því. Það má ekki gleyma því að það er fullt af fólki sem á svona tæki og keyrir þau bara eftir reglum, er alveg til fyrirmyndar og notar þessi tæki sem sem samgöngutæki. En þessir einstaklingar, sem misnota svona tæki, setja svartan blett á þetta.“

Árni bendir fólki á að hringja í 112 ef það …
Árni bendir fólki á að hringja í 112 ef það verður vart í óábyrga hegðun á rafskútum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is