Fundu risastóran íshelli í Langjökli

Litirnir og formin mynda þetta mikla sjónarspil í hvelfingunni stóru.
Litirnir og formin mynda þetta mikla sjónarspil í hvelfingunni stóru. Ljósmynd/Wioleta Gorecka

Fyrr í haust fannst nýr og óvenju stór íshellir austan megin í Langjökli. Starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækjanna Amazing tours og Sleipnir tours hófu þá að bæta aðkomu að íshellinum, tryggðu að ekki yrði ofanhrun og að lokum að setja upp lýsingu, en hellirinn er það stór og djúpur að þótt fólk hafi á sér höfuðljós verður fljótlega dimmt þar inni nema hann sé upplýstur.

Fannst við árlega leit í haust

Jón Kristinn Jónsson er annar eigandi og framkvæmdastjóri Amazing tours. Áður rak Arctic adventures snjósleðaleigu við suðausturhluta Langjökuls, en Amazing tours keyptu þann rekstur út í fyrra. Jón segir að fyrirtækið hafi um langt skeið stundað að leita að nýjum íshellum á þessum slóðum á haustin þegar orðið var snjólétt á jöklinum.

„Við fórum í aktíva leit snemma í haust og við höfum verið með augun opin frá því að sjór fór af jöklinum í ágúst og september,“ en þar vísar hann til Suðurjökuls sem teygir sig sunnan megin við Skriðufell í átt að Hvítárvatni.

Við íshellasvæðið í norðanverðum Suðurjökli. Í bakgrunni eru sleðar frá …
Við íshellasvæðið í norðanverðum Suðurjökli. Í bakgrunni eru sleðar frá Amazing tours og trukkarnir Sleipnir og Tatra frá Sleipni tours. Ljósmynd/Ólafur Þórisson

Leitin gekk vel í haust að hans sögn. „Við fundum gríðarlegt íshellasvæði,“ segir hann. Fyrst hafi verið um nokkra litla íshella að ræða sem hægt var að fara með ferðamenn í án breytinga, enda hafi þeir talist hættulausir. „En svo fundum við þennan stóra geymi. Allir sem hafa komið þangað inn hafa verið uppnumdir,“ segir Jón.

Fjórar vikur í undirbúning

Síðustu fjórar vikur hafa starfsmenn fyrirtækjanna tveggja unnið að því að bæta aðgengi og gera hellinn öruggann. Þannig lýsir hann því hvernig nokkrir starfsmenn hafi hangið í lofti íshellisins í nokkra daga og höggvið ís sem var líklegur að fara að detta. Þetta hafi verið gert til að tryggja að ekki yrði ofanhrun. Samhliða þessu hafi lýsing verið hönnuð og sett upp.

Fyrir um hálfum mánuði hafi þeir svo byrjað að fara með ferðamenn þangað í minni hópum og í síðustu viku var farið í kynningarferð með fólk úr ferðaþjónustunni til að skoða íshellinn. Hafa viðbrögðin ekki staðið á sér og hafa fjölmargir sem fóru í þá ferð deilt myndum á samfélagsmiðlum og lýst yfir hrifningu sinni af staðnum.

Íshellirinn er í norðurhluta Suðurjökuls.
Íshellirinn er í norðurhluta Suðurjökuls. Kort/mbl.is

Mikilfengleikinn felst í hvelfingunni

Þegar Jón er beðinn um að lýsa íshellinum segir hann að um sé að ræða gríðarlega stóra hvelfingu, en að hellirinn sé  svipaður í laginu og Gígjargjá í Hjörleifshöfða. „En þessi íshellir er svona þrisvar sinnum stærri en sá hellir,“ bætir Jón við. „Mikilfengleiki þessa náttúrufyrirbæris felst í hvelfingunni og hver kirkja gæti verið sæmd af þessu.“

Til upplýsinga má finna mynd af Gígjargjá í meðfylgjandi tengli.

Þegar gengið er inn í hellinn er að sögn Jóns um 15 metra gangur þangað til komið er að einskonar svölum. Þar er horft inn í íshellinn, en Jón segir hann vera í tveimur þrepum. Efra þrepið sé öllum aðgengilegt, en á það neðra sé erfiðara að komast og aðeins gert í sérhópum. Frá svölunum segir hann að sjáist vel hversu hár og mikill íshellirinn sé og litbrigðin mikil.

Upplifa má mikla litadýrð í íshellinum.
Upplifa má mikla litadýrð í íshellinum. Ljósmynd/Wioleta Gorecka

„Sá stærsti sem ég hef séð

Jón hefur sjálfur unnið sem jökla- og ævintýraleiðsögumaður undanfarin 12 ár. Hann segir stærð hellisins hafa komið bæði sér og öðrum í þessum geira á óvart. „Ég get ekki fullyrt að þetta sé sá stærsti sem hafi fundist, en eftir 12 ár sem ævintýraleiðsögumaður er þetta sá stærsti sem ég hef séð og allir sem vinna í greininni eru sammála um að svo sé,“ segir hann.

Jón segir að ekki hafi verið kannað hversu djúpur íshellirinn sé, en að á efra þrepinu sé hann líklega 40-50 metra á breiddina og 60 metrar á lengdina. „Svo er hann enn stærri þegar farið er niður í hann,“ bætir Jón við. Innst í hellinum sé jafnframt vatn og segir Jón líklegt að það endi við eða hafi endað við Hvítárvatn.

Ferðaþjónustufyrirtækin standa fyrir þremur ferðum daglega í íshellinn að sögn Jóns. Amazing tours sjá um tvær snjósleðaferðir og Sleipnir er með eina ferð í átta hjóla trukknum Sleipni. Segir Jón að samtals komist 48 í hverja ferð og því geti fyrirtækin annað um 150 manns á dag.

Fjöldi fólks hefur þegar lagt leið sína í íshellinn, en …
Fjöldi fólks hefur þegar lagt leið sína í íshellinn, en Jón á von á að hægt verði að fara með hópa þangað fram í apríl. Ljósmynd/Ólafur Þórisson

Vonar að íshellirinn haldist í þrjú ár

Íshellar sem þessir eru náttúruleg fyrirbæri og myndast og hverfa eftir högum móður náttúru. Það er ljóst að fyrirtækin hafa sett einhverja fjárfestingu í að koma þessari aðstöðu upp núna og spurður hvort það sé ekki fjárfesting sem geti horfið fljótt segir Jón að vonast sé til þess að íshellirinn haldi sér næstu þrjá vetra. Hins vegar geti það alveg eins orðið þannig að hann hverfi næsta sumar. Segir hann að almennt geti fyrirtækin horft til þess að vera með ferðir í íshellana frá miðjum október og fram í apríl, en það ráðist allt af veðurfarinu og breytingum á jöklinum.

Íshellirinn er ekki í einkaeigu neins einstaklings eða fyrirtækis. Spurður hvort fyrirtækin geri eitthvað til að halda þessum fundi fyrir sig segir Jón að svo sé ekki. Þannig muni þau ekki stöðva fólk sem komi þangað sjálft og vilji skoða hellinn. Hins vegar bætir hann því við að sér myndi þykja leiðinlegt ef aðrir ferðaþjónustuaðilar færu að nýta sér vinnu þeirra til að leiða þangað stóra hópa.

Ekki nóg að eiga góðan jeppa

Jón tekur jafnframt fram að ekki sé nóg að eiga góðan jeppa til að komast að íshellinum. Hann sé í 800 metra hæð á varasömum stað á jöklinum. Fyrirtækið hafi varið miklum tíma í að finna þangað örugga leið, sem liggi fyrst upp á jökulinn og svo aftur niður að sprungusvæðinu.

Þó að þau geti nú brunað beinustu leið þýði það ekki að óvanir geti gert það. Segist hann ráðleggja öllum frá því að fara á eigin vegum enda vilji fyrirtækið ekki bera ábyrgð á fólki sem þekki illa til svæðisins og reyni að komast þangað.

mbl.is