Meðvituð um eitt mál

Fyrrverandi starfsmenn Sælukots hafa krafist þess að leikskólanum verði lokað …
Fyrrverandi starfsmenn Sælukots hafa krafist þess að leikskólanum verði lokað tafarlaust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirhugað er að funda með foreldraráði og starfsmönnum leikskólans Sælukots á næstu dögum. Þetta staðfestir Kumari Kundan Singh, sem sér um rekstur skólans, í samtali við mbl.is. Tilefni fundarins er alvarleg gagnrýni fyrrverandi starfsfólks Sælukots á rekstri leikskólans sem þeir gerðu grein fyrir í ákalli sem ber yfirskriftina „Neyðarkall vegna Sælu­kots“.

Starfsmaður kærður fyrir kynferðisbrot

Innt eftir því segist Kumari ekki hafa borist neinar kvartanir um leikskólastarfið sjálf. Hún sé þó meðvituð um eitt mál, þar sem móðir stúlku á leikskólanum ásakaði karlkyns starfsmann um að hafa brotið kynferðislega á dóttur hennar.

„Það var brugðist við því á sínum tíma. Við vorum í samskiptum við barnavernd út af því máli þannig það var allt samkvæmt íslenskri reglugerð. Það var aðalmálið en nú sé ég að fleira hefur komið upp.“

Móðirin hefur kært starfsmann leikskólans til lögreglu fyrir að hafa brotið kynferðislega á dóttur hennar í þrígang. Lýsingar benda til þess að eitt af þessum meintu brotum hafi verið afar gróft, að því er RÚV greinir frá.

Segir mikilvægt að málin séu skoðuð til hlítar

Hvað aðrar athugasemdir við leikskólastarfið varðar segir Kumari mikilvægt að málin séu skoðuð til hlítar svo hægt sé að meta hvort og þá hvernig skuli bregðast við þeim.

„Við tökum allri gagnrýni fagnandi en við þurfum að sjá hvað í þessu er rétt og hvað er rangt. Ef það er eitthvað sem er ekki í lagi þá viljum við að sjálfsögðu skoða hvernig við getum bætt það.“

Hún segist þó taka alla gagnrýni á leikskólastarfið til sín og að hún sé af öllum vilja gerð til þess að betrumbæta starfið, börnunum, foreldrum þeirra og starfsfólkinu í hag.

„Hvað sem það er þá viljum við skoða hvort við getum lagað það. Í lífinu eigum við alltaf að leita leiða til að gera betur. Það er alltaf rými til bætinga.“

Ertu vongóð um að fundurinn með foreldraráði og starfsmönnum leikskólans fari vel?

„Já, ég held það. Af því er ég best veit eru foreldrar barnanna og þeir starfsmenn sem eru starfandi við skólann núna bara ánægðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert