Göng í gegnum Arnarnes á næsta ári

Samkvæmt forhönnun er gert ráð fyrir aðskildum hjóla- og göngustíg …
Samkvæmt forhönnun er gert ráð fyrir aðskildum hjóla- og göngustíg undir Arnarnesið og að göngin verði ríflega 30 metra löng. Teikning/Landslag

Á næsta ári er áformað að hefja framkvæmdir við undirgöng í gegnum Arnarnes fyrir hjólandi og gangandi umferð, en með þessu verður hægt að komast frá Garðabæ yfir Arnarnes og langleiðina upp Kópavogshálsinn án þess að þurfa að þvera umferðargötu.

Þetta er ein af fjölmörgum innviðaframkvæmdum sem fara á í á næsta ári í tengslum við samgöngusáttmálann sem undirritaður var á milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins.

Horfa á útboð snemma á næsta ári

Katrín Halldórsdóttir, sérfræðingur fyrir höfuðborgarsvæðið hjá Vegagerðinni, segir í samtali við mbl.is að frumdrög vegna framkvæmdarinnar séu tilbúin og verkhönnun sé í gangi. „Við erum að horfa á að koma þessu í útboð snemma á næsta ári,“ segir hún, en með því næst vor- og sumarramminn fyrir verktaka.

Leiðin yfir Arnarnesið er ein af fjölförnustu stofnæðum fyrir hjólandi umferð á höfuðborgarsvæðinu í dag, en hún tengir m.a. Reykjavík við Garðabæ og Hafnarfjörð. Á þeirri leið þarf þó að fara yfir bæði Arnarneshálsinn og Kópavogshálsinn þar sem bæði nokkur hækkun er og fólk þarf að þvera umferðargötur.

Á morgunfundi Vegagerðarinnar í morgun nefndi Katrín að þessi framkvæmd væri framundan á komandi ár og heyrði mbl.is í henni eftir fundinn til að fara nánar yfir málin. Katrín segir að þarna sé verið að horfa til þess að sníða gott stígakerfi sem verði aðskilið. Þ.e. það verður sér stígur fyrir hjólandi og sér fyrir gangandi. Segir hún að í núverandi drögum sé horft til þess að göngustígurinn verði 2 metra breiður og hjólastígurinn 2,5 metrar.

30 metra göng með ljósopi

Göngin sjálf verða rétt yfir 30 metrar að lengd, en Katrín segir að það búi til nokkrar áskoranir. „Göng þurfa að vera aðlagandi og þar skiptir fyrst og fremst máli að birtan sé góð,“ segir hún. Því sé gert ráð fyrir að setja ljósop á milli akreina á veginum sem er fyrir ofan.

Segir hún að með göngunum sparist einhver hækkun fyrir gangandi og hjólandi, en það sem skipti hvað mestu máli sé að losna við þverunina yfir Arnarnesveginn. „Þetta eykur töluvert þægindin,“ segir Katrín.

Kortið sýnir alla þá hjólastíga sem horft er til að …
Kortið sýnir alla þá hjólastíga sem horft er til að leggja á árunum 2020-2024 samkvæmt samgöngusáttmálanum, en sérstaklega er bent á þær framkvæmdir sem stefnt er á að fara í á næsta ári. Kort/mbl.is

Fjórar aðrar framkvæmdir á næsta ári

Auk ganganna í gegnum Arnarnesið eru fjórar aðrar framkvæmdir tengdar hjóla- og göngustígum á framkvæmdaborðinu vegna samgöngusáttmálans á næsta ári að sögn Katrínar.

Við Reykjavíkurveg í Norðurbæ Hafnarfjarðar er gert ráð fyrir hjólastíg frá Fjarðarhrauni að Hraunbrún. Þessi framkvæmd er ekki enn komin af teikniborðinu, en Katrín segir líklegt að það gangi hratt fyrir sig.

Þá er gert ráð fyrir hjólastíg frá Strandgötu í Hafnarfirði að Völlum. Fyrsti áfangi þeirrar framkvæmdar er frá hringtorgi við Hvaleyrarbraut að Reykjanesbraut þar sem stígurinn á að tengjast við stígakerfið við Ásbraut. Undirbúningur er hafinn við það verkefni að sögn Katrínar.

Við Ásbraut í Kópavogi, norðanmegin á Kópavogshálsi er svo unnið með hjólastíg frá Kársnesbraut og upp Ásbrautina. Í dag er þar hjólarein öðru megin á götunni, en verið er að endurskoða fyrirkomulagið. Katrín segir að Kópavogsbær haldi utan um þetta verkefni og muni sjá um útboðið þegar frekari vinnu sé lokið. Verkefnið sé þó líkt og önnur hluti af samgöngusáttmálanum.

Ný brú yfir Elliðaár

Að lokum er það brú við Dimmu, efst í Elliðaárdal þar sem nú er brú á gömlum hitaveitulögnum. Hönnun hennar var boðin út með hönnun Arnarnesvegar. Er það hugsað þannig að gert sé ráð fyrir stígakerfi samhliða Arnarnesvegi sem eigi að tala saman við núverandi stígakerfi og brúna við Dimmu. „Vonandi verður útboð á brúnni snemma á næsta ári,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert