Jón Atli í hópi áhrifamestu vísindamanna heims

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, er áfram á lista …
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, er áfram á lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, heldur sæti sínu á lista yfir áhrifamestu vísindamenn heims. 

Þetta kemur fram í tilkynningu Háskóla Íslands.

Listinn, sem birtist í morgun, ber heitið Highly Cited Researchers og er á vegum greiningarfyrirtækisins Clarivate Analytics. Á honum má finna eitt prósent vísindamanna úr hverri fræðgrein sem mest er vitnað til í vísindagreinum í alþjóðlegum vísindatímaritum.

Vitnað í verk Jón Atla 23.000 sinnum

Samkvæmt listanum hefur verið vitnað í verk Jón Atla yfir 23 þúsund sinnum á því tímabili sem er til skoðunar en hann er höfundur rúmlega 400 fræðigreina og bókarkafla á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði.

Jón Atli Benediktsson sem hefur verið á lista Clarivate Analytics um árabil en hann er í hópi fremstu vísindamanna heims á sviði fjarkönnunar og stafrænnar myndgreiningar. Fjarkönnun felst m.a. í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum, drónum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar.

Árangur Jóns Atla á listanum er ekki síst áhugaverður þegar horft er til þess að hann hefur verið rektor Háskóla Íslands undanfarin sex ár og á þeim tíma ekki sinnt rannsóknum í sama mæli og fyrr á ferlinum,“ segir í tilkynningu HÍ.

Horft til listans við gerð annarra lista

Auk Jón Atla má einnig finna þrjá gestaprófessora við HÍ á listanum, þau Bernharð Örn Pálsson, Jocelyn Chanussot og Ian F. Akyildiz. 

Í tilkynningunni segir einnig að afar þýðingarmikið sé fyrir háskóla að vísindamenn komist á listann þar sem þetta undirstriki m.a. styrk rannsóknarstarfsins þar. Er auk þess horft til listans þegar að háskólum er skipað sæti á Shanghai-listanum yfir bestu háskóla heims. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert