„Óheppilegt“ að Ísland sé orðið rautt á ný

Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna hefur ráðið Bandaríkjamönnum frá því að ferðast til …
Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna hefur ráðið Bandaríkjamönnum frá því að ferðast til Íslands. Eggert Jóhannesson

„Það er alltaf óheppilegt þegar tölfræðin þrýstir okkur upp á einhverjum svona listum. Svo verður bara að koma í ljós hvað þetta hefur mikil áhrif,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, inntur viðbragða við því að Ísland hafi enn og aftur verið sett á rauðan lista Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna í gær.

„Það hefur minnkað töluvert straumurinn núna inn í veturinn eftir október þannig að við erum bara að vinna með þann hóp af fólki sem er tilbúinn að ferðast þrátt fyrir faraldurinn.“

Bólusetningarstaða vegi upp á móti

Ísland er nú í fjórða og efsta flokki Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna hvað varðar áhættu vegna út­breiðslu far­ald­urs kór­ónu­veirunn­ar og hefur stofnunin ráðið Bandaríkjamönnum frá því að ferðast til Íslands. Inntur eftir því segir Jóhannes flokkunina hafa augljós áhrif á ferðaþjónustuna hér á landi.

„Þetta hefur þau áhrif að ferðamenn velta því meira fyrir sér hvert þeir eru að fara og hvernig ástandið og tilmælin eru á hverjum stað fyrir sig. Hins vegar eru bólusetningar orðnar mjög útbreiddar og sum ríki farin að horfa meira til þeirra í stað þess að fara aðeins eftir þessari tölfræðinálgun sem var sett upp í fyrra. Það er farið að hafa mótvægisáhrif gagnvart þessari flokkun líka.“

Þá segir hann bandaríska ferðamenn mjög mikilvæga íslenskri ferðaþjónustu enda einn af þremur stærstu ferðamannahópum sem komi hingað til lands á veturna í venjulegu árferði.

„Það er mjög mikilvægur hópur og það hefur ekkert breyst. Ef eitthvað er hefur mikilvægi þeirra aukist í faraldrinum. Síðastliðna mánuði hafa þeir farið úr því að vera um 30% allra ferðamanna sem koma hingað til lands og upp í 40%. Þannig að það skiptir ansi mörg fyrirtæki töluvert miklu máli hvernig ferðalög frá Bandaríkjunum eru hingað yfir veturinn.“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Færri bóki ferðir fram í tímann

Þetta sé þó ekki í fyrsta sinn sem Ísland er sett á rauðan lista stofnunarinnar og Bandaríkjamönnum ráðið frá því að ferðast til Íslands og því sé komin ágætis reynsla á hvaða áhrif það hefur á ferðaþjónustu hér á landi, að sögn Jóhannesar.

„Reynslan hefur sýnt að þeir sem eru búnir að bóka ferðir eru ólíklegir til að afbóka. Áhrifin koma kannski frekar fram í því að það eru færri bókanir fram í tímann en að það séu afbókanir á því sem er þegar komið inn í kerfin.“

Inntur eftir því segir hann bókunarstöðuna þokkalega hjá sumum fyrirtækjum miðað við aðstæður en heilt yfir sé hún afar slök miðað við venjulegt árferði.

„Árstíðasveiflan er sterk á Íslandi fyrir, sérstaklega þegar komið er út fyrir suðvesturhornið  en þar dettur ferðaþjónustan vanalega mjög mikið niður í lok október. Hins vegar vilja sumir spá því að það verði eitthvað af ferðamönnum hér í vetur en það er svolítið erfitt að meta það núna. Það verður bara að koma í ljós.“

mbl.is