Dvöl sprengjuflugvéla boði nýtt hlutverk Íslands

B-2 kjarnasprengjuflugvél í Keflavík.
B-2 kjarnasprengjuflugvél í Keflavík. Ljósmynd/Bandaríski flugherinn

Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra, setur spurningamerki við dvöl þriggja langdrægra sprengjuflugvéla bandaríska flughersins á Keflavíkurflugvelli í ágúst. Miðað við yfirlýsingar Bandaríkjahers og ummæli fulltrúa hans boði hún „nýtt og aukið hlutverk Íslands í hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO“.

„Íslensk stjórnvöld hafa ekki staðfest að svo sé og þau hafa að svo komnu tjáð sig með öðrum og mun almennari hætti en talsmenn Bandaríkjahers um dvöl B-2 sprengjuflugvélanna á landinu,“ skrifar Albert á vefsíðu sinni.

Hann starfaði sem ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkis- og öryggismálum í rúm tólf ár. Árið 2004 hóf hann störf hjá utanríkisráðuneytinu, fyrst sem sérlegur ráðgjafi utanríkisráðherra og síðar sendiherra.

Albert Jónsson.
Albert Jónsson. mbl.is/Hallur Már

Albert segir að áætlanir um Keflavíkurflugvöll sem nýja útstöð fyrir sprengjuflugvélar passi vel við þær endurbætur sem hafa staðið yfir á aðstöðu á Keflavíkurflugvelli fyrir eldsneytisflugvélar. Þaðan yrðu þær gerðar út á hættu- og stríðstímum til stuðnings herflugvélum.

„Koma B-2 flugvélanna og – að því er virðist – frekari tímabundin dvöl langdrægra bandarískra sprengjuflugvéla á Íslandi í framhaldi af komu B-2 vélanna fellur að hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO vegna öryggis á meginlandi Evrópu. Hún fellur einnig að vaxandi áherslu Bandaríkjahers á norðurslóðir og loks þeirri stefnu hans um áratuga skeið – og fyrr var nefnd – að í stríði yrði langdrægum sprengjuflugvélum beitt til árása frá norðurslóðum gegn sovéska hernum og nú þeim rússneska,“ skrifar hann og segir dvöl B-2 sprengjuþotanna á Keflavíkurflugvelli teljast til verulegra tíðinda í öryggismálum Íslands eftir kalda stríðið.

B-2 þota Bandaríkjahers.
B-2 þota Bandaríkjahers. Ljósmynd/Bandaríkjaher/Heather Salazar

Hann vitnar í viðtal mbl.is við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra vegna dvalar vélanna hérlendis og bætir við að ekki hafi verið greint frá því hvernig koma þotanna bar að íslenskum stjórnvöldum eða hvert framhald mála verður umfram það sem má ráða af upplýsingum frá bandaríska flughernum.

mbl.is