Þrátt fyrir allt ekki há slysatíðni vegna rafskúta

Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, segir mikið vanta …
Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, segir mikið vanta upp á að gert sé ráð fyrir öllum þessum rafskútum sem eru í notkun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nauðsynlegt er að skoða slysatölur yfir rafskútuslys í samhengi við þá miklu aukningu sem orðið hefur á notkun rafskúta á höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum. Hann telur að þeir sem aki slíkum tækjum langt yfir 25 kílómetra hámarkshraða þeirra átti sig ekki á hvað líkaminn er dýrmætur, en um sé að ræða stórhættulega hegðun sem auki margfalt líkurnar á alvarlegum slysum.

Slysum í tengslum við rafskútur fjölgaði töluvert á milli ára, en á tímabilinu frá júní til ágústloka á þessu ári leituðu alls 245 einstaklingar á bráðamóttöku Landspítalans vegna rafskútuslysa. Það gerir 2,7 að meðaltali á dag. Á sama tímabili árið 2020 leituðu 149 á bráðamóttöku eftir slík slys eða 1,6 að meðaltali á dag. Í síðustu viku varð svo fyrsta banaslysið hér á landi þar sem rafskúta kom við sögu.

Hjalti segir þessa þróun hafa haldið áfram í september og október. Slysum haldi áfram að fjölga í takt við aukna notkun. Hann segist hafa áætlað það gróflega að í sumar hafi verið farnar um milljón ferðir á rafskútum. Í því samhengi sé þessi fjöldi slysa ekki óhugnanlegur.

„Það er engin spurning að slysum út af rafskútum hefur fjölgað frá því sem áður var en á móti verðum við að vera meðvituð um að það hefur orðið algjör sprenging í notkun á þessum ferðamáta. Þrátt fyrir allt þá er ekki hægt að segja að það sé há slysatíðni af því að nota rafskútur,“ segir Hjalti í samtali við mbl.is.

Flest slys þegar ekið er of hratt

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar um orsakir, eðli og afleiðingar rafskútuslysa sem birtist í Læknblaðinu í janúar síðastliðnum urðu flest rafskútuslys vegna þess að viðkomandi fór of hratt og/eða missti jafnvægið. Hjalti segir þó áberandi hvað ölvun sé sterkur þáttur í þessum slysum, líkt og öðrum slysum, en rafskútuslysum um helgar hefur fjölgað meira en á virkum dögum.

„Sem betur fer eru fá slys alvarleg og í langflestum tilfellum eru þetta minniháttar áverkar sem fólk verður fyrir. Algengastir eru ákverkar á andliti og efri útlimum. Það er sjaldnar um að ræða áverka á fótleggjum. Það eru afar fáir sem þurfa að leggjast inn á sjúkrahús alvarlega slasaðir en það hefur því miður komið fyrir.“

Ekki aftur tekið ef maður lendir í alvarlegu slysi

Töluvert er um átt sé við rafskútur og þeim breytt til þess að auka hraða þeirra, en mbl.is hefur birt nokkur myndbönd sem sýna fólk aka slíkum tækjum um og yfir 70 kílómetra hraða úti í umferðinni. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði samtali við mbl.is fyrr í vikunni að hann teldi það nokkuð algengt að rafskútum væri breytt með þessum hætti. Hann líkti því að falla af rafskútu á um 70 kílómetra hraða við að falla ofan af 10 hæða húsi.

Hjalti tekur undir að slík hegðun auki margfalt líkurnar á stórslysi. „Ég held að þau sem geri það séu ekki alveg að meta það hversu dýrmæt eign líkaminn okkar er. Það er ekki aftur tekið ef maður lendir í alvarlegu slysi og svona hegðun er náttúrulega alveg stórhættuleg.“

Hann segir mikilvægt að læra að nota rafskútur og fara varlega þannig ekki hljótist af þeim slysahætta. „Að þeytast um í umferðinni á rafskútu er að sjálfsögðu stórhættulegt og ætti alls ekki að gera. Þá eru ansi miklar líkur á því að fólk þurfi að koma upp í vinnu til mín í slæmu ástandi, sem við viljum helst að fólk forðist.“

Brýnt að efla öruggar leiðir fyrir rafskútur

Hjalti mælir með því að fólk noti hjálm á rafskútu en heilaáverkar séu þó ekki algengir í rafskútuslysum. „En að sjálfsögðu er komin mikil hætta á því þegar fólk er komið á 70 kílómetra hraða á þessum farartækjum, sem þau eru alls ekki hönnuð fyrir.“

Notkun varnarbúnaðar sé þó ekki aðalmálið til að draga úr slysum heldur eigi bætt umferðarmenning þar stærstan þátt. „Að við hönnum borgina okkar til samræmis við þennan ferðamáta og að fólk fari varlega og gæti að örygginu.“

Hann segir mikið vanta upp á að gert sé ráð fyrir öllum þessum rafskútum sem eru í notkun í borginni. „Borgin hefur fyrst og fremst verið hönnuð til þess að fólk ferðist um hana á bíl og það er tæpur helmingur borgarlandsins sem fer undir bílinn. En núna er þetta orðinn mjög vinsæll, ódýr og umhverfisvænn ferðamáti og það er því mjög brýnt að halda áfram þeirri stefnu sem hefur verið hjá borginni, að efla öruggar ferðaleiðir fyrir þennan fararmáta.“

mbl.is