Myndi gera hagkerfið næstum óháð jarðefnaeldsneyti

Frá Hellisheiðarvirkjun. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki …
Frá Hellisheiðarvirkjun. Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki með beinum hætti. mbl.is/Golli

Miðað við flestar aðrar þjóðir ætti staða Íslands varðandi framleiðslu og notkun vetnis að teljast mjög góð, að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans. Þar segir að Íslendingar hafi möguleika á að framleiða mikla orku og notkun umframorku til framleiðslu vetnis sé augljós kostur.

„Vetnisvæðing fiskiskipa- og flutningaskipaflotans kemur vel til greina og sama má segja um flutninga- og leigubíla og jafnvel flugvélar. Notkun vetnis á þessum sviðum myndi gera íslenska hagkerfið næstum óháð jarðefnaeldsneyti. Að því leyti gæti vetnisvæðing komið í kjölfarið á raf- og hitaveituvæðingu þjóðarinnar. Þessu til viðbótar er ljóst að nálægar þjóðir eru sem óðast að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þar mun eftirspurn vaxa mikið eftir orkugjöfum eins og vetni. Það er því eftir miklu að slægjast,“ segir í Hagsjánni. 

Nauðsynlegt að styrkja framboðs- og eftirspurnarhliðina

Þar er komið inn á þá staðreynd að vetnisgeirinn í alþjóðahagkerfinu sé tiltölulega lítill en mengi mjög mikið. Þá sé hann algjörlega nauðsynlegur. 

„Vetni er sérstakur orkugjafi að því leyti að það þarf að framleiða með öðrum orkugjöfum. Á næstu árum mun hreint rafmagn koma í staðinn fyrir óhreint rafmagn á mörgum sviðum, en ferlið er flóknara varðandi vetni. Vetni mun helst koma að gagni þegar það er notað á nýjan hátt og á nýjum sviðum, t.d. sem rafeldsneyti. Til þess að nýir hættir og ný svið geti orðið til er nauðsynlegt að notendur geti treyst á nægt framboð vetnis. Til þess að notkun vetnis aukist er því nauðsynlegt að styrkja bæði framboðs- og eftirspurnarhliðina, t.d. með opinberum styrkjum,“ segir í hagsjánni. 

„Vetni getur verið hagkvæmt þar sem erfitt er að nota rafmagn með beinum hætti. Hér á landi má benda á skipaflotann, landflutninga og leigubíla - allt svið þar sem orkunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda er mikil.“

Hagsjána má lesa í heild sinni hér 

mbl.is