„Veit ekki hvert maðurinn er að fara“

Vigdís Hauksdóttir og Baldur Borgþórsson.
Vigdís Hauksdóttir og Baldur Borgþórsson. Samsett mynd

„Ég kannast ekki við neitt af því sem hann hefur verið að bera á borð,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi og oddviti Miðflokksins í Reykjavík, innt eftir viðbrögðum við úrsögn Baldur Borgþórssonar, varaborgarfulltrúa hennar, úr Miðflokknum í gær. Hún segir úrsögnina hafa komið sér í opna skjöldu.

Baldur sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun að hann hafi gengið úr Miðflokknum vegna samstarfsörðuleika við Vigdísi.

Segir Baldur ekki hafa rætt örðugleika við sig

Hún segir að á engan hátt hafi verið samstarfsörðugleikar þeirra á milli varðandi vinnulag þó að þau hafi ekki verið fullkomlega sammála í örfáum málum. „En það er eitthvað sem ég sem oddviti ber ábyrgð á að fara með í gegnum borgarkerfið.“

„Ég kannast ekki við neitt af því sem að maðurinn er að tala um. Hann vísar í eitthvað sem kom upp árið 2018, ég minni á að borgarstjórnarkosningarnar voru árið 2018. Eins og ég segi; ég kannast ekki við þetta og þar að auki hefur hann aldrei rætt neitt af þessu tagi við mig,“ segir Vigdís.

Baldur sagði starfshætti Vigdísar ekki samræmast gildum framboðsins og ekki málefnalega. „Ég hafði tvo leiðarvísa til að fara eftir [...] annars vegar stefnuskrá framboðsins og hins vegar, það sem er ekki síður mikilvægt; gildi framboðsins,“ sagði Baldur í morgun. 

„Í okkar tilfelli voru gildin í anda Sigmundar Davíðs, að við myndum haga störfum okkar og starfsháttum þannig að við værum í hvívetna málefnaleg og myndum sína góða framkomu og góðan þokka og vera okkur sjálfum og ekki síður framboðinu til sóma. Það sem að var algjört „no-no“ var að persónugera hlutina og vaða í persónu andstæðinganna sem er algjör óþarfi.“

Sagðist vera búinn að reyna allt

Baldur sagði að fljótlega hafi farið að renna á hann tvær grímur þar sem að Vigdís hafi ekki farið eftir þessum gildum. Tók hann undir það að Vigdís hafi vegið að persónum andstæðinga sinna, bæði í stjórnmálum og embættismanna og að það hafi verið það sem hann gafst upp á í samstarfi sínu við Vigdísi. 

„Ef ég á að segja eins og er, er ég búinn að reyna allt,“ sagði Baldur, spurður hvað hafi verið reynt til þess að ná saman áður en til úrsagnar hans úr flokknum kom. Hann sagðist hafa rætt við forystu flokksins en það hafi ekki dugað til. 

Vigdís kveðst óska Baldri velfarnaðar í framtíðinni og þakka honum samstarfið. Spurð út í ummæli Baldurs um að hann hafi „reynt allt“ segir Vigdís að Baldur verði að útskýra það betur. „Ég bara veit ekki hvert maðurinn er að fara.“

Fordæmalaust að sitja áfram óháður í nefndum

Baldur hefur tilkynnt að hann hyggist starfa áfram sem óháður varaborgarfulltrúi, en að nefndarsetur og hlutverk hans velti á Vigdísi, enda geti hún tekið hann úr nefndum og ráðum á vegum flokksins. 

Vigdís segist eiga eftir að ræða stöðu Baldurs eftir úrsögnina við forystu flokksins. „Ég á eftir að ráðfæra mig við æðstu menn flokksins um hvort honum sé stætt á því að sitja sem óháður í nefndum sem Miðflokkurinn hefur umráð yfir. Það er fordæmalaust hjá borginni, ég er búin að spyrjast fyrir um það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina