Gagnrýnir fullyrðingar um sóttkví

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undanfarið hafa birst greinar og fullyrðingar frá ýmsum málsmetandi aðilum í íslensku samfélagi um að framkvæmd sóttkvíar vegna Covid-19 hér á landi sé gjörólík framkvæmd sóttkvíar t.d. á hinum Norðurlöndunum. Einnig er látið að því liggja að flestar þjóðir framkvæmi sóttkví á sama máta en að framkvæmdin sé með gjörólíku sniði hér á landi. Greinilegt er að þeir aðilar sem tjá sig um málefnið hafa annað hvort ekki aflað sér nægilegra góðra upplýsinga eða skrumskælt þær óafvitandi eða af yfirlögðu ráði.

Þetta kemur fram í pistli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á covid.is. Hann segir að þegar upplýsingar um framkvæmd sóttkvíar á hinum Norðurlöndum séu skoðaðar komi í ljós að hver þjóð sé með sínar eigin leiðbeiningar og útfærslur á sóttkví  sem í veigamiklum atriðum eru ólíkar.

Allar Norðurlandaþjóðirnar skilgreina útsetningu fyrir smiti á sama hátt og skilgreina sóttkví og einangrun á sama máta þó framkvæmdin sé ólík eins og áður sagði. Flestar þjóðirnar setja sínar leiðbeiningar undir þeim formerkjum að bólusetning gegn Covid-19 sé útbreidd og faraldurinn sé í lámarki í samfélaginu en því er nú ekki til að dreifa þessa stundina í flestum landanna,“ skrifar Þórólfur.

Reglur um sóttkví í skólum rýmkaðar

Hann bendir á að í mörgum landanna séu börn til að mynda sett í sóttkví við útsetningu á heimilum en þurfi að undirgangast próf reglulega í vikutíma eftir útsetningu í skóla. Í flestum landanna séu hins vegar heilu bekkirnir settir í hefðbundna sóttkví ef upp koma fleiri en eitt smit í sama bekk.

Nokkur hinna Norðurlandanna gera greinarmun á þeim sem eru bólusettir og óbólusettir þar sem að óbólusettir þurfa ekki að fara í sóttkví en þurfa að undirgangast PCR próf á á meðan að bólusettir eru lausir við íþyngjandi aðgerðir svo fremi að þeir séu einkennalausir,“ skrifar Þórólfur.

Hann segir að reglur um sóttkví í skólum hafi verið rýmkaðar verulega hér á landi undanfarið og einungis þeir settir í sóttkví sem raunverulega voru útsettir fyrir smiti á meðan að aðrir fara í smitgát.

Reglur endurskoðaðar ef örvunarskammtur skilar tilætluðum árangri

Full bólusettir hafa ekki verið undanþegnir sóttkví hér á landi og segir Þórólfur það byggja á þeim gögnum sem aflað hefur verið að smitlíkur eru töluverðar hjá fullbólusettum einstaklingum þó að þær séu um þrefalt minni en hjá óbólusettum. Komi í ljós að örvunarskammti dragi umtalsvert úr lílkum á smiti umfram tvo skammta bóluefna verða reglur um sóttkví hér á landi endurskoðaðar.

Þó að gagnrýnar umræður um þær sóttvarnaráðstafanir sem hér eru viðhafðar séu nauðsynlegar þá þjóna þær ekki tilgangi sínum ef menn fara fram með rangar staðhæfingar og láta líta út sem að við séum eftirbátar annarra hvað sóttvarnaráðstafanir varðar. Samanburður við aðra getur verið gagnlegur en nauðsynlegt er að sjái líka það sem vel er gert hér á landi. Einnig verður að líta til þess að ráðstafanir í einu landi kunna ekki að virka sem skyldi í öðru,“ skrifar Þórólfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert