Greiða ekki heldur krónu í ferðakostnað

Brynja Halldórsdóttir er móðir stúlkunnar sem um ræðir. Sjúkratryggingar Íslands …
Brynja Halldórsdóttir er móðir stúlkunnar sem um ræðir. Sjúkratryggingar Íslands taka ekki þátt í kostnaði við meðferð hennar.

Þrátt fyrir að þurfa að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu út á land fyrir dóttur sína reglulega, vegna tveggja og hálfs árs biðar eftir sömu þjónustu í Reykjavík, þurfa foreldrar stúlkunnar að bera allan ferðakostnað. Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) taka hvorki þátt í ferðakostnaði né öðrum kostnaði við meðferðina.

Brynja Halldórsdóttir ræddi við mbl.is fyrir tveimur vikum vegna máls dóttur hennar sem þarf á talþjálfun að halda. Um tveggja og hálfs árs bið er eftir þjónustu talmeinafræðings í Reykjavík og ákváðu Brynja og maðurinn hennar því að leita til nýútskrifaðs talmeinafræðings á Akureyri. Meðferðina fá þau ekki niðurgreidda þar sem einungis þjónusta talmeinafræðinga með tveggja ára reynslu fellur inn í greiðsluþátttökukerfið.

Brynja taldi samt sem áður að þau gætu fengið ferðakostnað niðurgreiddan þar sem þau neyðast til að sækja þjónustuna út fyrir heimabyggð, eins og kveðið er á um á vef Sjúkratrygginga. Ákvað hún því að láta á það reyna að fá ferðakostnað niðurgreiddan en þeirri beiðni hefur nú formlega verið hafnað. Brynja íhugar nú hvort hún eigi að fara með málið fyrir úrskurðarnefnd um velferðarmál.

Þjónustan í raun ekki til staðar þegar biðin er svona löng

Þótt talþjálfunin sé dóttur Brynju nauðsynleg þá taka SÍ ekki þátt í henni vegna þess að stofnunin tekur ekki þátt í að greiða talþjálfunina sjálfa af ástæðum sem raktar voru hér á undan: vegna þess að talmeinafræðingurinn sem dóttir Brynju sækir þjónustu til hefur ekki starfað í tvö ár sem slíkur og fellur því utan rammasamnings.

„Eins sérkennilegt og það er að Sjúkratryggingar neiti að hleypa nýútskrifuðum talmeinafræðingum inn í rammasamninginn, er enn sérkennilegra að stofnunin neiti að greiða ferðakostnað vegna þjónustu sem ekki er til staðar í heimabyggð, á þeirri forsendu að þjónustan sem sótt er, sé ekki niðurgreidd,“ segir Brynja við mbl.is.

Vildi láta á þetta reyna fyrir aðra foreldra

„Ég er ekki að barma mér að fá kostnaðinn ekki endurgreiddan þar sem hann sligar okkur ekki en ég vildi samt láta á þetta reyna, fyrir aðra foreldra sem hafa ekki efni á því að ferðast landshluta á milli og jafnvel gista á hóteli til þess börnin þeirra fái þá þjónustu sem börnin þeirra þurfa og eiga rétt á,“ segir Brynja.

Þá er greiðsluþátttaka í ferðakostnaði háð því að ekki sé hægt að veita þjónustu í heimabyggð. Talþjálfun er þjónusta sem veitt er í Reykjavík en staðan er einfaldlega sú að bið eftir þjálfun þar er tvö og hálft ár eins og kemur fram hér að ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert