Landsvirkjun hlaut loftslagsviðurkenningu

Höfuðstöðvar Landsvirkjunar við Háaleitisbraut.
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar við Háaleitisbraut. mbl.is/Jón Pétur

Landsvirkjun hlaut Loftslagsviðurkenningu Reykjavíkurborgar og Festu í ár. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Líf Magneudóttir, formaður dómnefndar, afhentu viðurkenninguna á árlegum Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar sem haldinn var í Hörpu í dag. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá Festu og Reykjavíkurborg.

Stefna á kolefnishlutleysi árið 2025

Þetta er í fimmta sinn sem Loftslagsviðurkenningin er afhent og er hún veitt aðilum sem hafa sýnt fram á árangur með aðgerðum eða nýjum lausnum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í rökstuðningi dómnefndar kom meðal annars fram að Landsvirkjun stefni að kolefnishlutleysi árið 2025 og að fyrirtækið hafi um árabil birt loftslagsbókhald staðfest af ytri aðila. Þá hafi fyrirtækið fengið háa einkunn hjá alþjóðlega aðilanum Carbon Disclosure Project - CDP eða A- og haldið úti rauntíma mælaborði á aðgerðir í loftslagsmálum. Einnig hafi fyrirtækið átt viðamikið samstarf varðandi nýsköpun og að afurð fyrirtækisins sé orka úr endurnýjanlegri auðlind með lágu kolefnisspori. Loks er tekið fram að Landsvirkjun hafi dregið úr beinni losun (umfang 1) um 3.171 tonn CO2 ígilda á milli áranna 2019 og 2020 eða um 8%.

Frá Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar í Hörpu í dag.
Frá Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar í Hörpu í dag. Eggert Jóhannesson

„Við erum afar stolt af þessari viðurkenningu á stefnu okkar og störfum undanfarin ár, þar sem allt starfsfólk hefur lagst á eitt svo við getum verið leiðandi í loftslagsmálum. Við munum sannarlega halda áfram á sömu braut og þessi viðurkenning er okkur hvatning til þess,“ sagði Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri samfélags- og umhverfissviðs hjá Landsvirkjun, við afhendingu Loftslagsviðurkenningarinnar í dag.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sagði fyrirtækið taka loftslagsbreytingum alvarlega og að það endurspeglist í starfsemi fyrirtækisins.

Endurnýjanlega orkuvinnslan okkar veitir okkur mikið forskot og Landsvirkjun mun áfram leggja sitt af mörkum til að við náum þeim árangri í loftslagsmálum sem stefnt er að. Íslendingar geta orðið fyrsta þjóð í heimi til að losa sig við jarðefnaeldsneyti og við getum klárað full orkuskipti á næstu árum. Orkumálin eru loftslagsmál.“

Hvetja bændur til að taka til hendinni

Sérstaka hvatningaviðurkenningu hlaut verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður sem er samstarfsverkefni Ráðgjafarmiðstöðvar Landbúnaðarins, Landgræðslunnar, Skógræktarinnar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

„Loftslagsvænn landbúnaður þakkar kærlega fyrir þessa mikilsverðu viðurkenningu. Hún er ómetanleg hvatning fyrir bændur til að vera virkir þátttakendur í loftslags vegferðinni og eflir okkur sem stöndum á bak við verkefnið að halda ótrauð áfram. Styrkur verkefnisins felst í öflugu samstarfi þriggja fagaðila og tveggja ráðuneyta sem er eitt af lykilatriðum þess að vel takist til við að finna lausnir á því hvernig bændur geti unnið að loftslagsmálum á jákvæðan hátt,“ sagði Berglind Ósk Alfreðsdóttir, verkefnastjóri Loftslagsvæns landbúnaðar, við afhengingu viðurkenningarinnar.

mbl.is
Loka