Sjö ár fyrir gróf brot gegn sambýliskonu

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur þyngt dóm yfir karlmanni fyrir að hafa nauðgað þáverandi sambýliskonu sinni, meinað henni útgöngu af heimili hennar, hótað henni lífláti og beitt hana ýmiskonar grófu ofbeldi, svo sem að pota í augu hennar, þrengt að öndunarvegi konunnar, skallað hana, sparkað í hana og kastað þvagi yfir hana.

Þá er hann einnig fundinn sekur um að hafa ítrekað brotið nálgunarbann sem hann sætti vegna ógnandi hegðunar og áreitis í garð konunnar. Maðurinn braust einnig inn til konunnar.

Áður hafði maðurinn fengið sex ára dóm í héraðsdómi, en Landsréttur taldi rétt að þyngja dóminn í sjö ár og að honum yrði gert að greiða konunni fjórar milljónir í miskabætur, eða tvöfalda þá upphæð sem héraðsdómur hafði dæmt konunni.

Brotin „sérstaklega ófyrirleitin

Í dómi Landsréttar segir að brot mannsins hafi verið „sérstaklega ófyrirleitin og atlögur ákærða langvinnar.“ Þá er hann ekki sagður eiga sér neinar málsbætur.

Í dómi héraðsdóms er farið nánar yfir hvert brot fyrir sig, en þar kemur meðal annars fram að hann hafi nauðgað henni í byrjun árs 2020 og haft í hótunum við hana. Þá tók hann síma af konunni, skallaði hana, meinað henni útgöngu af heimilinu og dregið hana um íbúðina þannig að stór spegill féll á hana.

Þá hafi hann í framhaldinu kastað þvagi á hana, skorið litla fingur með skærum, haft í hótunum um að klippa af henni fingurna og drepa hana og slegið og bitið hana. Að lokum hafi maðurinn lagst ofan á konuna og brotið á henni kynferðislega. Átti ofbeldið sér stað frá morgni miðvikudags, en á hádegi daginn eftir náði konan að hringja eftir aðstoð lögreglu. Var framburður lögreglu og símtal til Neyðarlínunnar meðal þeirra gagna sem dómurinn horfði til við ákvörðun refsingar.

Hótaði lífláti í viðurvist lögreglumanna

Nokkrum mánuðum síðar kom maðurinn á heimili konunnar, eftir að hún hafði fengið sett á hann nálgunarbann. Beitti hann hana þá aftur ofbeldi með því að slá hana, sparka í hana og þrengja að öndunarvegi hennar, ógnað henni með hnífum, potað í augu hennar og nauðgað henni.

Þá hafi maðurinn hótað henni lífláti í símtali og svo síðar sama dag í viðurvist lögreglumanna á lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Þá braust hann inn á heimili konunnar og veist að henni með ofbeldi á sama tíma og hann braut nálgunarbann sem hann sætti.

Tveimur dögum síðar réðst maðurinn aftur að konunni með hnefahöggi og sparki. Braut hann meðal annars framtennur í konunni.

Heimfært undir lög frá 2016 um brot gegn sambúðaraðila

Eru brot hans heimfærð undir ákvæði 218. gr. c í almennum hegningarlögum, en sú grein kom inn í lögin með breytingum á lögum árið 2016. Er þar tekið á ítrekuðum og alvarlegum brotum gegn núverandi og fyrrverandi maka eða sambúðaraðila eða niðja. Er maðurinn fundinn sekur um brot gegn annarri málsgrein laganna, en slíkt brot getur varðað allt að 16 ára fangelsi.

„Ef brot er stórfellt getur það varðað fangelsi allt að 16 árum. Við mat á grófleika verknaðar skal sérstaklega líta til þess hvort þolandi hafi beðið stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlotist af. Enn fremur ber að líta til þess hvort brot hafi verið framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt, hafi staðið yfir í langan tíma eða hvort gerandi hafi misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart þolanda.]”

mbl.is