Ísland einna best fallið til að ala upp börn

mbl.is/Kristinn Magnússon

Gögn Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD) benda til þess að hvergi sé jafn gott að ala upp börn og í Ástralíu, á Íslandi og í Japan. Gögnin miðast við aðildarríki stofnunarinnar, sem flest eru í Evrópu, en á meðal þeirra eru helstu hagsældarríki heims, að því er fram kemur í laugardagsblaði Morgunblaðsins. 

Allir foreldrar vilja að uppeldisskilyrði barna sinna séu sem best. En jafnvel þótt foreldrar standi sig óaðfinnanlega eru það hin ytri skilyrði í þjóðfélaginu sem mestu ráða um það hvernig fer. Það þarf til dæmis að vera fyrir hendi öflugt heilbrigðiskerfi og menntakerfi.

Ástralska vefsíðan Compare the Market skoðaði fyrir skömmu gögn 31 þjóðar innan OECD (en aðildarríki stofnunarinnar eru 38) til að leita svara við spurningunni um það í hvaða landi best væri að ala upp börn. Við matið vega þættir eins og heilbrigðisþjónusta, val á bólusetningum og framboð á öruggu drykkjarvatni þyngst. Einnig er horft á lífslíkur og opinber útgjöld til menntamála og opin græn svæði til útivistar.

Við samanburðinn kom Ástralía best út. Mest var hægt að fá 10 stig og fékk landið 7,07. Hæstu einkunnina fékk það fyrir græn svæði á hverja milljón íbúa. Þá eru lífslíkur fólks hvergi betri en í Ástralíu og þar er í boði öflug heilbrigðisþjónusta fyrir alla landsmenn.

Ísland lenti í öðru sæti með 6,37 stig. Segir í athugasemdum að þetta komi ekki á óvart því yfirleitt sé talið að hvergi í heiminum séu lífsgæði meiri en á Norðurlöndum. Aðeins tvö lönd sem könnuð voru reyndust geta boðið öllum íbúum upp á hreint drykkjarvatn og var Ísland annað þeirra. Þá hafi hvergi verið varið hærri fjárhæðum til menntamála en hér, 7,7% af vergri þjóðarframleiðslu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert