Aldrei stundað launaþjófnað

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, gefur lítið fyrir ummæli Agniezku Ewu Ziólkowsku, formanns Eflingar, um meintan launaþjófnað fyrirtækisins en hún sagði í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins að þegar hún vann fyrir fyrirtækið hefði það „svindlað á sér og öðru starfsfólki“.

„Þeir vita að þetta er satt því þeir hafa endurgreitt mér og öðru starfsfólki sem varð fyrir barðinu á þessu,“ sagði Agniezka í viðtalinu.

„Ég get alveg vottað það að Kynnisferðir stunda engan launaþjófnað og hafa ekki gert,“ segir Björn. „En auðvitað er það þannig með kjarasamninga eins og almennt getur gerst í samningum milli aðila, hvort sem það eru kjarasamningar, leigusamningar eða hvers konar samningar, að menn geta skilið atriði í samningum hvor á sinn hátt.

Samtök atvinnulífsins túlka efni kjarasamninga á ákveðinn hátt og verkalýðsfélögin á annan hátt og við töldum okkur vera að vinna innan ramma kjarasamninga. Efling var ósammála því og niðurstaðan var sú að í staðinn fyrir að láta reyna á þetta fyrir dómstólum komumst við að sátt sem aðilar voru sammála um.“

Málið snerist um breytilegar vaktir hjá vagnstjórum sem aka strætisvögnum þar sem starfsmenn gátu unnið mismikið milli mánaða.

„Starfsmaður gat unnið rúmlega fullt starf einn mánuðinn og næsta minna en fullt starf og þá fluttust annaðhvort vannýttir eða umframunnir tímar á milli mánaða, svokallaður tímabanki.“ Málið hafi snúist um hvort heimilt væri að jafna út vinnustundir milli lengri tímabila en mánaðar. Björn segir að Kynnisferðir greiði laun samkvæmt kjarasamningi og hafi talið sig gera slíkt í þessu tilfelli. Kynnisferðir hafi í kjölfarið ákveðið að breyta fyrirkomulaginu og nú sé gert upp í hverjum mánuði, engir tímar flytjist milli mánaða lengur.

„Þannig að þetta snerist um þessa ráðstöfun vinnutíma og því finnst mér mjög ósanngjarnt af formanni Eflingar að kalla þetta launaþjófnað enda var brugðist við athugasemdum og þetta lagað og því ekki um neinn launaþjófnað að ræða.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert