Allt niður í sólarhringsgömul börn í farsóttarhúsum

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins.
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins. mbl.is/Sigurður Bogi

Fleiri börn hafa þurft að dvelja á farsóttarhúsum í yfirstandandi bylgju kórónuveirufaraldursins en áður og hafa yngstu börnin verið allt niður í sólarhringsgömul. Þetta segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, í samtali við mbl.is.

„Það er þumalputtareglan að 10% af þeim sem greinast smitaðir á hverjum degi koma til okkar. Það þýðir að hjá okkur eru nú 160 gestir. Töluverður fjöldi þeirra eru börn og svo eru um 10-15 ósmitaðir foreldrar sem eru að fylgja börnunum sínum í einangrun,“ segir hann.

Fá smitaðar konur af sængurkvennadeildinni

Þótt aukna líkur sé á að ósmitaðir foreldrar sem fylgi smituðum börnum sínum einangrun smitist einnig sé það ekki algilt, að sögn Gylfa.

Fólk hefur alveg smitast við það að fylgja öðrum í einangrun en sumir hafa sloppið. Ég tala nú ekki um ef fólk er bólusett eða hefur fengið Covid áður. Þá eru meiri líkur en minni á að það sleppi þó það sé ekki öruggt heldur.“

Börnin eru allt frá því að vera nokkra vikna gömul og upp í stálpaða unglinga, segir Gylfi inntur eftir því.

„Svo höfum við verið að fá konur af sængurkvennadeildinni með nýfædd börn sín. Yngsta barnið sem við höfum fengið til okkar var sólarhringsgamalt. Við fylgjumst sérstaklega vel með þeim.“

Spurður segir hann gesti farsóttarhúsanna blöndu af Íslendingum og útlendingum. Eitthvað sé um erlenda ferðamenn þó þeir séu færri nú en oft áður í faraldrinum.

„Jú jú, það eru einhverjir útlendingar hjá okkur en þeim hefur farið fækkandi. Mest er þetta fólk sem býr hér á landi, bæði útlendingar,með íslenskar kennitölur, sem búa hér og vinna eða þá barnfæddir Íslendingar.“

Farsóttarhótel Reykjavík Lights var nýlega tekið í gagnið.
Farsóttarhótel Reykjavík Lights var nýlega tekið í gagnið. mbl.is/Unnur Karen

Flestir gestanna sýni lítil sem engin einkenni

Þó flestir gestanna sýni lítil sem engin einkenni séu alltaf einhver dæmi um að fólk veikist mikið og þurfi þar af leiðandi meiri eftirfylgni, að sögn Gylfa.

„Það er þá fólk sem hefur þurft að fara frá okkur og yfir á covid göngudeildina. Svo höfum við einnig verið með fólk hjá okkur sem hefur þurft að leggjast inn á sjúkrahús.“

Inntur eftir því segir hann ágætlega hafa gengið að manna farsóttarhúsin undanfarin misseri. Það hafi þó ekki alltaf verið raunin og útlit sé fyrir að ráðast þurfi í frekari ráðningar fyrir desembermánuð.

„Þetta er búið að vera slagur að manna þetta allt saman. Það hafa hátt í 300 starfsmenn runnið í gegn hjá okkur því það er bara ráðið tímabundið. Þannig þetta hefur stundum verið svolítið flókin staða en hún er kannski með besta móti núna. Það er samt ekki ólíklegt að ég þurfi að ráða fleiri fyrir desember vegna fría hjá fólki.“

160 einstaklingar dvelja nú á farsóttarhúsum á Íslandi.
160 einstaklingar dvelja nú á farsóttarhúsum á Íslandi. Ljósmynd/Rauði krossinn

Starfrækja þurfi fleiri farsóttarhús yfir jólin

Telur þú að þær sóttvarnaraðgerðir sem nú eru í gildi dugi til að ná faraldrinum niður?

„Ég er nú ekki læknir og því ekki alvitur í þessu en mín persónulega skoðun er sú að við hefðum alveg getað lifað með harðari aðgerðum í kannski einhverjar tvær þrjár vikur til að reyna hafa jólin sem þægilegust fyrir alla. En vonandi duga núverandi aðgerðir. Tíminn á bara eftir að leiða það í ljós.“

Miðað við smittölur síðastliðinna daga sé þó ekki ólíklegt að starfrækja þurfi fleiri farsóttarhús yfir jólahátíðina sem er framundan heldur en í fyrra, að sögn Gylfa.

„Við gerum allavega ráð fyrir því að það verði einhverjir gestir hérna yfir bæði jólin og áramótin.“

Þá segir hann óljóst hve lengi þurfi að starfrækja farsóttarhúsin í þeirri mynd sem þau eru nú. Rauði krossinn sé þó með samninga við bæði starfsfólkið og hótelin út janúar.

„Við höfum sagt það frá því að fyrstu bylgjunni lauk að þetta sé alveg að verða búið og teljum farsóttarhúsin alltaf vera við það að loka en við höfum haft rangt fyrir okkur fram að þessu. Ég ætla bara að taka þann pólinn í hæðina að þetta sé bara ekkert að verða búið og að ég þurfi að undirbúa mig fyrir það að vera hérna eitthvað áfram en ég vona að ég hafi rangt fyrir mér með það líka.“

mbl.is