Einhverjir verði ósáttir með niðurstöðuna

Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar.
Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Und­ir­bún­ings­nefnd fyrir rannsókn kjörbréfa kom saman í dag til að leggja loka­hönd á greinar­gerð um taln­ingu kjör­bréfa í kosn­ing­un­um í Norðvest­ur­kjör­dæmi. Greinagerðin var þó ekki tilbúin þegar mbl.is náði tali af Birgi Ármannssyni, formanni nefndarinnar, að fund loknum.

„Við náðum ekki að klára þannig við munum funda hér aftur seinnipartinn,“ segir hann.

Nefndin kom saman í dag til að leggja loka­hönd á …
Nefndin kom saman í dag til að leggja loka­hönd á grein­ar­gerð um taln­ingu kjör­bréfa í kosn­ing­un­um í Norðvest­ur­kjör­dæmi. Eggert Jóhannesson

Mismunandi sjónarmið komið upp í nefndinni

Í samtali við Morgunblaðið í morgun sagði Birgir nefndina vera að vinna að tveimur tillögum. Inntur eftir því segist Birgir ekki vilja tjá sig um innihald þeirra. Verið sé að fara yfir öll skjöl á lokametrunum, þ.á.m. líklegar tillögur en að engin niðurstaða sé komin í þá umræðu ennþá.

„Það er alveg ljóst að þegar kemur að svona matskenndum þáttum þá hafa komið upp mismunandi sjónarmið í nefndinni en þeim umræðum er ekki lokið.“

Ekki eru all­ir sam­mála um hvort við hæfi sé að þeir fimm þing­menn sem hlutu sæti eft­ir end­urtaln­ingu taki þátt sök­um hags­muna sinna. Samkvæmt þingsköpum hafi þó allir 63 þingmenn sem fengið hafa kjörbréf þingmannsrétt þar til annað er ákveðið, að sögn Birgis.

„Það verður svo hver að meta stöðu sína út frá sínum forsendum,“ segir hann.

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, situr í nefndinni.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, situr í nefndinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segir þingið hafi ekki aðra kosti í stöðunni

Sig­mar Guðmunds­son þingmaður Viðreisn­ar í Suðvest­ur­kjör­dæmi sagði í viðtali við mbl.is. í gær að sér þætti ekki sanngjarnt að kjósendur í einum hluta landsins greiði atkvæði þegar kosningaúrslit liggja fyrir í öðrum kjördæmum. Birgir segir þingið þó ekki hafa neina aðra kosti í stöðunni, inntur viðbragða við ummælum Sigmars.

„Lögin kveða á um það að ef kosning í einu kjördæmi er metin ógild þá fer fram uppkosning í því kjördæmi og ekki annarsstaðar. Þannig ef kjörbréf einhverra eru ekki metin gild þá er þetta afleiðingin samkvæmt lögunum.“

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins, á fundinum í dag.
Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins, á fundinum í dag. Eggert Jóhannesson

Verði að afgreiða verkefnið í samræmi við lög

Spurður segir Birgir erfitt að spá fyrir um það hver niðurstaða kosningarinnar á fimmtudaginn verður. Það sé þó ljóst að ekki allir verði sáttir með hana, sama hver lendingin verður.

„Það hefur komið fram frá upphafi að niðurstaða í þessu máli yrði aldrei þannig að allir yrðu sáttir við hana og að þeir sem yrðu ósáttir, hverjir það sem svo verða, myndu alveg örugglega reyna að leita eitthvað áfram en við verðum auðvitað bara að afgreiða okkar verkefni í samræmi við lög og samkvæmt bestu samvisku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert